Hvalur hf. hagnaðist um rúma þrjá milljarða króna á síðasta rekstrarári, sem náði frá 1. október 2013 til 30. september 2014. Tekjur félagsins af sölu hvalafurða nam rúmlega milljarði króna á þessu tímabili en kostnaður vegna reksturs hvalveiðiskipa og útgerðar í Hvalfirði var tvöfalt hærri, eða rúmlega tveir milljarðar króna. Rekstrarárið á undan voru tekjur af hvalkjötssölu svipaðar og í fyrra en kostnaðurinn vegna hvalveiða nam þá tæplega 1,6 milljarði króna.
Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem skilað var til ársreikningaskrár Ríkisskattstjóra fyrir verslunarmannahelgi. Stærsti eigandi Hvals hf. er Fiskveiðihlutafélagið Venus. Það er að stórum hluta í eigu Kristjáns Loftssonar, framkvæmdastjóra Hvals hf.
Hvalur hf. rekur hvalstöðina í Hvalfirði, gerir út hvalveiðiskip og vinnur afurðirnar. Fram kemur í ársreikningnum að á árinu 2013 voru veiddar 134 langreyðar og 137 árið 2014.
Þrátt fyrir að veiði á langreyðum hafi skilað um milljarðs króna tapi á síðasta rekstrarári þá hagnaðist félagið um þrjá milljarða króna. Tekjur voru 4,3 milljarðar, að langstærstum hluta vegna eignarhluta Hvals hf. í félaginu Vogun hf. Það félag á þriðjungshlut í HB Granda, einu stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Íslands. Tekjur af óbeinum eignarhlut Hvals í HB Granda nam 3,2 milljörðum króna á rekstrarárinu.
Í ársreikningi Hvals hf. er lagt til að um 800 milljónir greiðist til hluthafa í formi arðs. Hluthafar eru 109 talsins, flestir einstaklingar með eignarhlut innan við eitt prósent. Eignir félagsins í lok september 2014 voru að andvirði 23,7 milljarðar króna og eigið fé var 15,7 milljarðar. Eiginfjárhlutfall félagsins var því 65,99 prósent í lok rekstrarársins.
Í skýrslu stjórnar í ársreikningnum er farið yfir hvalveiðar félagsins á síðustu árum. Hvalveiðar hófust að nýju árið 2006 eftir átján ára hlé. Það ár veiddi Hvalur hf. sjö langreyðar af kvóta sem taldi níu langreyðar. Árið 2009 var gefin út reglugerð um að næstu fimm árin yrði árlega heimilt að veiða þann fjölda langreyða sem kveðið er á um í veiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofnunnar. Sumarið 2009 veiddi Hvalur hf. 125 langreyðar og sumarið eftir veiddi það 148 langreyðar. Ekki voru stundaðar hvalveiðar næstu tvö ár. Þær hófust að nýju í júní 2013 og veiddust þá 134 langreyðar en 137 í fyrra.
Tveggja milljarða farmur á leið yfir hafið
Greint var frá því í dag að virði farmsins á flutningaskipinu Winter Bay, sem nú siglir norðurausturleið um Íshafið norðan Rússlands á leið til Japan, er um tveir milljarðar króna. Farmurinn er hvalkjöt og hvalspik úr Hvalstöðinni í Hvalfirði. Kristján Loftsson staðfesti við norskan fjölmiðil í gær hvert virði farmsins er en alls eru um 1.800 tonn af hvalkjöti og hvalspiki um borð. Afurðirnar eru frá vertíð síðasta sumars.
Hvalveiðar Íslendinga hafa sætt mikilli gagnrýni frá því að þær hófust á ný, bæði eru þær umdeildar innanlands og gagnrýndar af leiðtogum annarra ríkja, meðal annars Bandaríkjanna. Samtök gegn hvalveiðum hafa beitt sér gegn hvalveiðum Hvals hf. og reynt að koma í veg fyrir að hvalkjötið og hvalspikið komist leiðar sinnar til Japan.Í viðtalinu við norska sjávarútvegsblaðið gagnrýnir Kristján harðlega þau samtök sem hafa beitt sér gegn hvalveiðum. „Ég forðast ákveðið að nefna þessi samtök nöfnum sínum og gildir þá einu í hvaða samhengi það er. Þau eru á móti öllu, líka því sem er löglegt og nota gjarnan ólöglegar aðferðir til að koma sinni sýn á framfæri. Þau lifa á athyglinni sem þau fá í fjölmiðlum og ég vil ekki hjálpa til við það með því að nefna nöfn þeirra á opinberum vettvangi,“ segir Kristján, í þýðingu Skessuhorns sem greindi frá.