Þau átök sem átt hafa sér stað innan Bjartrar framtíðar undanfarna daga hafa vart farið framhjá áhugamönnum um stjórnmál. Heiða Kristín Helgadóttir, sem var annar forvígismanna að stofnun flokksins í febrúar 2012, hefur gagnrýnt sitjandi formann, Guðmund Steingrímsson, harkalega og sagst tilbúin að taka sæti hans sé vilji fyrir því á meðal flokksmanna. Enginn þingmanna flokksins hefur stigið fram og stutt formanninn í þessum ólgusjó sem hefur ýtt mjög undir getgátur um að tími hans sé liðinn.
Heiða Kristín var stjórnarformaður Bjartrar framtíðar þar til að hún tilkynnti brotthvarf sitt í lok síðasta árs. Þegar Björt framtíð var stofnuð kom fram í fréttatilkynningu að í forystu flokksins yrðu „tveir formenn, sem skulu starfa saman og vera sammála um stórar ákvarðanir.“ Nú hefur Heiða Kristín opinberað að formennirnir hafi ekki einu sinni verið sammála um hvernig flokkurinn þeirra ætti að vera og því hafi hún hætt.
Í lok janúar 2015 var nýr stjórnarformaður kosin í stað Heiðu Kristínar. Sú sem hlaut brautargengi er fyrrum fréttamaðurinn Margrét Marteinsdóttir. Nokkrum dögum síðar tók DV viðhafnarviðtal við Margréti, sem fjallaði reyndar að mjög litlu leyti um stjórnmálaþátttöku hennar. Þar sagði hún þó frá því að það sem hafi ýtt henni út í að sækjast eftir stjórnarformennskunni væri meðal annars gagnrýni sem komið hefði fram á Bjarta framtíð fyrir að það heyrðist ekki í flokknum. „En ég heyri alveg af henni og það er fjöldi fólks sem heyrir í henni. Þegar þingmenn og sveitarstjórnarfólk kemur fram af virðingu og kurteisi og þá er eins sumir nemi ekki raddirnar. Pólitíkin er svo óvægin, en það er algjör óþarfi. Ég sá fyrir mér að mig langaði að gera eitthvað í þessu," sagði Margrét við DV. Á þessum tíma mældist fylgi flokksins um 17 prósent í könnunum MMR.
Síðan að þetta viðtal var birt, 13. febrúar 2015, hefur Margrét ekki komið fram í fjölmiðlum til að ræða stjórnmál, samkvæmt niðurstöðu leitarvélar Fjölmiðlavaktarinnar, og fylgi Bjartrar framtíðar hefur hrunið niður í um fjögur prósent.
Í ljósi þeirrar miklu ólgu sem nú er í Bjartri framtíð er vert að velta því fyrir sér hver sýn hins formanns flokksins, sem á samkvæmt orði að vera jafnsett formanninum, á ástandinu er.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.