Samanlagður fjöldi gesta á leiksýningar leikhúsa, atvinnuleikhópa og áhugaleikfélaga á Íslandi árið 2014 var 375 þúsund. Íslendingar voru um 329 þúsund um síðustu áramót og því jafngildir heimsóknarfjöldinn því að hver Íslendingur hafi farið rúmlega einu sinni í leikhús á ári. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands um leikhúsástundum Íslendinga.
Í frétt Hagstofunnar segir að sveiflur í aðsókn milli einstakra ára ráðist "vafalaust af talsverðu leyti af verkefnavali frá ári til árs. Ef miðað er við aðsókn að leiksýningum að jafnaði síðast liðin fimm leikár í samanburði við næstu fimm leikár á undan má ljóst vera að leikhúsið heldur velli þrátt fyrir fjölbreyttara og stóraukið úrval afþreyingar sem fólki stendur til boða. Aðsókn að leiksýningum síðast liðin fimm leikár og næstu fimm leikár á undan var nánast sú sama, eða 395 þúsund gestir að jafnaði á leikárunum 2009/2010-2013/2014 á móti 397 þúsund gestum leikárin 2004/2005-2008/2009.
Aðsókn að leiksýningum er í raun nokkru hærri en hér kemur fram þar sem upplýsingar um aðsókn að sýningum Leikfélags Akureyrar vantar fyrir síðustu fjögur leikár. Aðsókn að sýningum áhugaleikfélaga á síðasta leikári er áætluð."
Mary Poppins trekkti mest að
Alls voru starfrækt fimm atvinnuleikhús á Íslandi í fyrra með aðstöðu í fjórum leikhúsum. ÞAr eru ellefu leiksvið sem rúma 3.706 gesti í sæti. Alls voru sett upp 65 uppfærslur á vegum leikhúsanna eða í samstarfi við aðra. Flesti verkin voru leikrit, eða 38 talsins. Uppfærslur eftir íslenska höfunda voru 32 en eftir erlenda höfunda 21. Uppfærslur eftir innlenda og erlenda höfunda voru 12 talsins. Alls voru sýnda 1.047 sýningar á síðasta leikár, sem er aðeins færri en árið á undan.
Sýningagestir í leikhúsum einvörðungu voru 271.046 eða 23 þúsund færri en árið á undan. Þar munaði lang mest um aðsókn á Mary Poppins en ríflega 40 þúsund gestir sáu þá sýningu Leikfélags Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu.