Nú er kjörtímabil Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands farið að styttast allverulega í annan endann. Á næsta ári mun Ólafur Ragnar hafa gegnt embættinu í tuttugu ár þegar hans fimmta kjörtímabili lýkur 1. ágúst 2016.
Þar sem einungis slétt ár er eftir af valdatíð Ólafs Ragnars keppast margir nú við að spá fyrir um eftirmann hans, og hefur nokkrum nöfnum nú þegar verið kastað í hattinn. Hvað verða vill á hins vegar eftir að koma í ljós.
Blaðamaðurinn góðkunni Ómar Valdimarsson hefur staðfest við Kjarnann að hann íhugi alvarlega að bjóða sig fram til forseta Íslands, og verður það að teljast allt eins líklegt að hann geri það. Aðrir hafa ekki lýst því yfir að þeir muni sækjast eftir forsetastólnum þegar hann losnar á næsta ári. Ætli flestir séu ekki enn að bíða eftir að sjá hvað Ólafur Ragnar ætlar að gera, því þrátt fyrir að hafa lýst því yfir í blaðaviðtali í júní á síðasta ári að hann ætli ekki að bjóða sig fram aftur, er maðurinn þvílíkt ólíkindatól.
Hvort hann er enn að bíða eftir álíka þrýstingi og fyrir síðustu forsetakosningar eða verðugum andstæðingi skal ósagt látið.
Hverjir fleiri munu gefa kost á sér? Það er pælingin.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.