Útlán Íbúðalánasjóðs til íbúðakaupa hafa verið nær hverfandi þar sem af er þessu ári, eða aðeins um 2,5 milljarðar króna. Skuldabréfaútgáfa Íbúðalánasjóðs er að öllum líkindum liðin undir lok en sjóðurinn gaf ekki út ný skuldabréf í fyrra og ekkert það sem af er ári 2015. Þetta er mat fjármála- og hagfræðiráðgjafar Capacent sem skrifar um skuldabréfaútgáfu sjóðsins undir yfirskriftinni „Síðasti geirfuglinn“.
Ekki liggur nákvæmlega fyrir hver framtíð Íbúðalánasjóðs verður en sjóðurinn hefur barist í bökkum allt frá efnahagshruni. Íbúðalánasjóður skilaði hagnaði upp á 3,2 milljarða króna á síðasta ári og er það í fyrsta sinn sem hann skilar slíkum frá árinu 2008. Í millitíðinni hefur sjóðurinn tapað tæpum 58 milljörðum króna og ríkissjóður hefur þurft að leggja honum til 53,5 milljarða króna frá árinu 2009 til að halda sjóðnum gangandi. Útlán á árinu 2014 lækkuðu um 40,4 milljarða króna og námu ný útlán einungis um 6,6 milljörðum króna árið 2014.
jóðurinn er samt sem áður enn langstærsti íbúðalánveitandi á Íslandi með 43 prósent markaðshlutdeild. Hún hefur hins vegar minnkað hratt á undanförnum árum. Hún var talin vera á bilinu 55 til 60 prósent árið 2011. Viðskiptabankarnir hafa haft Íbúðalánasjóð undir í samkeppni um útlán til íbúðakaupa, en til samanburðar við 6,6 milljarða útlán sjóðsins í fyrra þá jukust íbúðalán Landsbankans um 39 milljarða króna.
Sigurður Erlingsson, sem var forstjóri sjóðsins frá árinu 2010, lét af störfum í apríl síðastliðnum. Auglýst hefur verið eftir nýjum forstjóra, meðal annars í dagblöðum í dag, og er umsóknarfrestur til 5. júlí. „Stjórn Íbúðalánasjóðs leitar að kröftugum einstaklingi til að leiða sjóðinn í gegnum tímabil breytinga og skapa starfsfólki og viðskiptavinum jákvætt umhverfi á þeirri vegferð,“ segir í auglýsingunni. „Forstjóri þarf að hafa góðan skilning á fjölbreyttum verkefnum sjóðsins og þekkingu á því lagaumhverfi sem hann starfar innan.“
Fyrir um mánuði síðan brást stjórn Íbúðalánasjóðs við frétt Stöðvar 2 þar sem haft var eftir Peter Dahlman, sérfræðingi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að viðskiptamódel Íbúðalánasjóðs sé ónýtt og að nauðsynlegt sé að ná samkomulagi um nýja stefnu stjórnvalda í húsnæðismálum. „Stjórn Íbúðalánasjóðs tekur undir það með AGS að nauðsynlegt er að ljúka vinnu við framtíðarskipan húsnæðismála og ná sátt um nýja húsnæðisstefnu. Hinsvegar bendir stjórnin á að brýnt sé að gætt sé að því að breytingar á starfsemi sjóðsins séu vel ígrundaðar og undirbúnar þannig að sem minnst tjón hljótist af,“ sagði í tilkynningu frá stjórn Íbúðalánasjóðs vegna þessa.