Nú eru fram komnar tillögur um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands, sem fela meðal annars í sér miklar breytingar á æðstu stjórn bankans, með fjölgun seðlabankastjóra í þrjá. Í skipaninni eins og hún er núna, þá er Már Guðmundsson seðlabankastjóri, einn fimm nefndarmanna í peningastefnunefnd, sem ákvarðar vexti. Í fundargerðum nefndarinnar, sem birtar eru á vef Seðlabanka Íslands, hefur mátt greina augljósar rökræður í nefndinni um hvort skuli lækka, hækka eða halda vöxtum óbreyttum.
Þetta er gott fyrirkomulag og gagnsætt, og það sést einnig að seðlabankastjórinn er ekki einráður þegar að þessu kemur, heldur einn af fimm nefndarmönnum. Rökræðurnar þjóna tilgangi, og skipta sköpum við að taka vel ígrundaða ákvörðun.
Að undanförnu hefur náðst fínn árangur við framkvæmd peningastefnunnar, ef mið er tekið af því að verðbólgumarkmiði, sem er 2,5 prósent, hefur verið náð og því haldið undir því um nokkurra mánaða skeið.
Það er kannski of mikil einföldun að bera þessa spurningu fram hér í pælingu dagsins, en hvers vegna er verið að breyta lögunum núna, fyrst það gengur ágætlega að vinna eftir þeim eins og þau eru? Hvað kallar á breytingarnar? Vonandi dettur engum stjórnmálamanni það í hug, að með því að fjölga seðlabankastjórum í þrjá, þá verði hægt að troða flokksdindlum í seðlabankastjórastöðurnar. Það yrði afleit afturför, en myndi um leið svara því nokkuð skýrt, hvers vegna stjórnvöld hafa áhuga á því núna að breyta lögum um Seðlabanka Íslands.