IMMI- Alþjóðleg stofnun um upplýsinga og tjáningarfrelsi hvetja til þess að lögbannskröfu á umfjöllun Kastljós í kvöld verði synjað. Tveir menn hafa farið fram á það við sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að lögbann verði sett á umfjöllun Kastljósins sem senda átti út í kvöld, þar sem fjallað verður um hversu langt sölumenn eru tilbúnir að ganga til að selja óviðurkenndan varning. Kastljósið notaðist við faldar myndavélar við vinnslu umfjallarinnar.
Í yfirlýsingu IMMI, sem send var fjölmiðlum síðdegis segir: „Sú umfjöllun Kastjóss sem lögbannskrafan beinist að, á brýnt erindi til almennings. Hér er ekki eingöngu um tjáningarfrelsi að ræða heldur ekki síður rétt borgara til aðgangs að upplýsingum. Því er afar mikilvægt að sýslumaður standi í lappirnar og synji lögbannsbeiðninni. Hafi lög verið brotin á þolandinn þess kost að hefja dómsmál og krefjast skaða- eða miskabóta. Í tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar segir: Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Samkvæmt ákvæðinu á Kastljósfólk að njóta tjáningarfrelsis en þarf eins og aðrir að ábyrgjast tjáningu sína fyrir dómi, eftir birtingu þáttarins.“
Þá harmar IMMI að löggjöf sem kveðið er á um í þingsályktun frá árinu 2010, um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu um upplýsinga- og tjáningafrelsi, hafi ekki litið dagsins ljós.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem farið er fram á lögbann á umfjöllun RÚV, en það gerðist síðast árið 2009 þegar fréttastofa RÚV ætlaði sér að fjalla um lánabók Kaupþings sem hafði verið lekið á uppljóstrunarsíðu Wikileaks. Það lögbann var afturkallað.