Það er mat Brynjars Níelssonar alþingismanns að „það hafi hvorki verið ólögmætt né óskynsamlegt að slitabúin fengju yfirgnæfandi hlut í Arion banka og Íslandsbanka, enda ekki óeðlilegt þar sem verið var að færa yfir skuldir og eignir gömlu bankanna í þá nýju.“ Þetta kemur fram í skýrslu sem hann skilaði til stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um ásakanir Víglundar Þorsteinssonar.
Víglundur sendi gögn á þingmenn og fjölmiða í janúar sem hann sagði sýna að að stjórnmálamenn, embættismenn í ráðuneytum og Fjármálaeftirlitið (FME) hafi framið stórfelld og margvísleg lögbrot þegar þeir ákváðu að breyta stofnúrskurði eftirlitsins um stofnun nýrra banka á grunni þeirra þriggja sem féllu í október 2008. Víglundur vildi meina að með þessu hafi erlendir „hrægammasjóðir“ átt að hagnast um 300 til 400 milljarða króna á kostnað þjóðarinnar.
Spurning um virðisauka
Í skýrslu Brynjars, sem var birt á vef Alþingis síðdegis í dag, segir að ríkið hafi stofnað umrædda banka, verið eigandi þeirra og tekið með því verulega áhættu. Því kunni að vakna sú spurning, með hliðsjón að óvissu um verðmæti eigna bankanna, af hverju ekki var gert samkomulag um skiptingu virðisauka eins og gert var í samningum um Landsbankann. Í þeim samningum skiptist virðisauki á milli ríkisins og kröfuhafa en í samningunum hjá Arion banka og Íslandsbanka skiptist virðisauki vegna eigna milli nýju bankanna og slitabúa fyrirrennara þeirra. Eigendur Arion banka og Íslandsbanka eru að langstærstu leyti slitabú gömlu bankanna.
Víglundur Þorsteinsson, fyrrum eigandi BM Vallár, segir að stjórnmálamenn, embættismenn í ráðuneytum og Fjármálaeftirlitið (FME) hafi framið stórfelld og margvísleg lögbrot þegar þeir ákváðu að breyta stofnúrskurði eftirlitsins um stofnun nýrra banka á grunni þeirra þriggja sem féllu í október 2008. Brynjar Níelsson hafnar þeim ásökunum.
Í skýrslu Brynjars segir: „Ekki hafa komið afgerandi skýringar á því hvers vegna mál þróuðust með þessum hætti. Nærtækt er að ætla að stjórnvöld hafi talið mikla áhættu felast í því að eiga alla bankana og að útilokað hafi verið að fá kröfuhafa gömlu bankanna til að taka yfir þessa nýju banka nema hugsanlegur virðisauki eignasafnsins kæmi allur til þeirra. Hver sem skýringin er virðist sem lítil eða engin andstaða hafi verið við þessa ráðstöfun á bönkunum í umræðum á þinginu í desember 2009 og virðist jafnvel sem mikil ánægja hafi verið með að ríkið skyldi losna við að taka dýr lán til að mynda eigið fé bankanna og að bankarnir þyrftu ekki að gefa út skuldabréf sem gæti haft í för með sér mikla gjaldeyrisáhættu.“
Fullyrðingar Víglundar eiga ekki við rök að styðjast
Brynjar segir að við heildarmat á lánasöfnum bankanna hafi verið tekið tillit til þess að mismunandi líkur voru á innheimtu lánanna sem í þeim voru. Sum voru líkleg til að innheimtast að fullu, önnur að hluta og sum voru hreinlega töpuð. „Mun meðaltalið hafa verið nálægt því um helmingur af stöðu lánanna og afslátturinn sem því nemur. Hvert lán var því ekki lækkað um helming, heldur tók matsverðið mið af mismunandi líkum á innheimtu. Við það miðaði heildarkaupverðið.
Fullyrðingar Víglundar í bréfi til þingmanna um að skuldarar lánanna, sem færð voru til nýju bankanna, hafi verið hlunnfarnir eiga því ekki við rök að styðjast.[...]Með hliðsjón af öllu framansögðu er ekki fallist á að í samkomulagsleiðinni um skiptingu eigna og skulda, sem nýju bankarnir tóku yfir, hafi verið farið á svig við lög. Enn síður er nokkuð sem bendir til þess að beitt hafi verið með skipulögðum hætti blekkingum og svikum til hagsbóta fyrir erlenda kröfuhafa á kostnað ríkisins og einstakra skuldara.“
Ríkið fær allt sitt rúmlega til baka
Brynjar segir líklegt að ríkissjóður geti fengið alla þá 190 milljarða króna sem hann lagði til við endurreisn bankanna til baka og rúmlega það. „Virðisaukinn hefur styrkt fjárhagslega stöðu bankanna og þannig tryggt fjárfestingar ríkissjóðs í þeim. Má því ætla að þessi útgjöld séu í eðli sínu fjárfestingar sem skili sér með góðri ávöxtun.
Þegar til þessa er horft verður ekki sagt að slitabúin hafi grætt á kostnað ríkisins, þótt vel megi halda því fram að hægt hefði verið að semja um einhverja hlutdeild ríkisins í virðisauka sem varð á eignum sem yfirfærðar voru til bankanna sem þá voru í eigu ríkisins. Segja má að slitabúin hafi fengið sanngjarnt verð fyrir eignir sínar og að heildarverðmætið hafi í raun verið mjög nálægt meðaltali mats Deloitte. Ekki hafa komið fram haldbær gögn um að viðskiptavinir nýju bankanna hafi verið hlunnfarnir.“
Engin haldbær gögn liggi fyrir um annað en að málefnaleg rök hafi almennt ráðið för við endurskipulagningu og uppgjör lána fyrirtækja og heimila.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði áskanir Víglundar við fyrstu sín sláandi og boðaði rannsókn á þeim þegar þær voru lagðar fram í síðasta mánuði.
Örugglega hægt að benda á einhver mistök
Í skýrslu Brynjars segir að þegar horft sé til baka megi örugglega benda á einhver mistök sem hafi átt sér stað við endurreisn bankanna þriggja og annað sem betur hafi mátt fara. „En það er auðveldara um að tala en í að komast þegar allt bankakerfið hrynur á einu bretti eins og gerðist í byrjun október 2008. Enginn var viðbúinn svona fordæmalausum aðstæðum á fjármálamarkaði. Þótt neyðarlögin hafi reynst góð svo langt sem þau ná var lagaramminn og umgjörðin öll mjög takmörkuð og rennt var nokkuð blint í sjóinn við það gríðarlega erfiða verkefni að halda greiðslumiðlun gangandi, reisa við bankakerfið og endurskipuleggja skuldir einstaklinga og atvinnulífs. Hins vegar tókst að tryggja hagsmuni ríkissjóðs með viðunandi hætti þótt vel megi vera að hægt hafi verið að gera betur í þeim efnum. Þá tókst að byggja upp trausta banka með góða eiginfjárstöðu. Þeir fjármunir sem ríkið lagði til þeirra eru tryggðir og ríkissjóður hefur engum fjármunum tapað í eiginlegum skilningi.“
Hann segir að ef sú leið hafi verið farin að ríkið hefði eignast alla bankana og gefið út skuldabréf til slitabúa þeirra væri skuldastaða ríkissjóðs nokkur hundruð milljörðum króna verri en hún er í dag og þjóðin væri ófær um að afla gjaldeyris til greiðslu útgefinna skuldabréfa nýju bankanna til slitabúanna. „Hefði slíku ráðslagi fylgt gífurleg áhætta fyrir þjóðarbúið. Aðrar leiðir voru farnar við endurreisn annarra fjármálafyrirtækja. Ekki verður fjallað um það í þessari skýrslu en til meðferðar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins er rannsóknarskýrsla um sparisjóðina. Jafnframt þyrfti að mati skýrsluhöfundar að skoða betur aðgerðir stjórnvalda í tengslum við aðstoð við minni fjármálafyrirtæki eins og Saga Capital, Verðbréfastofuna og Askar Capital og á hvaða grunni veitt var ríkisábyrgð á skuldabréfi SPRON og Sparisjóðabankans til slitabús Kaupþings.“