Þrír þingmenn Vinstri grænna, þau Katrín Jakobsdóttir formaður VG, Svandís Svavarsdóttir og Ögmundur Jónasson, hyggjast leggja fram þingsályktunartillögu um heimild til skattrannsóknarstjóra til kaupa á erlendum gögnum um skattaundanskot íslenskra borgara. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá VG til fjölmiðla.
Í fréttatilkynningunni segir: „Lagt er til að skattrannsóknarstjóri leggi svo fljótt sem auðið er mat á þau gögn sem embættinu hafa verið boðin til kaups og annist kaup á þeim telji skattrannsóknarstjóri það rétt. Einnig er lagt til að Alþingi samþykki að tryggja fjárheimildir til kaupanna.“
Í tilkynningunni segir að um sé að ræða réttlætismál sem varði hagsmuni ríkissjóðs og þar með allra landsmanna. „Skattsvik sem framin eru með því að fela fé í svokölluðum skattaskjólum eru alþjóðlegt vandamál sem barist er gegn á mörgum sviðum. Þingmálið er liður í þeirri baráttu enda ljóst að þessi brotastarfsemi hefur grafið um sig hérlendis eins og svo víða annars staðar og mikilvægt að brugðist verði við af fullri einurð. Í framhaldi af því er nauðsynlegt að setja framtíðarramann um fyrirkomulag þessara mála,“ segir í fréttatilkynningunni.