Þegar framboð af íbúðum var sem mest, í maí í fyrra, voru rétt tæplega fjögur þúsund íbúðir til sölu á landinu öllu. Um þessar mundir eru þær um 1.400 og fækkar milli mánaða. Allar líkur eru á að sú fækkun haldi áfram.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem birt var í dag. Þar segir að um 480 íbúðir í fjölbýli séu til sölu á höfuðborgarsvæðinu nú en í byrjun árs hafi þær verið um 820 og í maí 2020 voru þær um 1.800. „Sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu hefur hins vegar fjölgað um nærri 50 frá byrjun síðasta mánaðar og eru nú um 220. Á landsbyggðinni hefur íbúðum í fjölbýli fækkað um 40 á sama tímabili og eru þar nú um 240 íbúðir til sölu en sérbýlum hefur fækkað um nærri 60 og eru nú um 460.“
Aðeins voru 80 nýjar íbúðir auglýstar til sölu á höfuðborgarsvæðinu í byrjun október 2021 en þær voru um 114 í byrjun síðasta mánaðar og yfir 900 í maí 2020. Þá eru 64 nýjar íbúðir til sölu í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og 19 annars staðar á landinu.
Íbúðaverð hækkað um fimmtung frá byrjun árs 2020
Þrátt fyrir þetta heldur þeim íbúðum sem seldar eru yfir ásettu verði áfram að fækka milli mánaða og sölutími íbúða lengdist. Það bendir til þess að markaðurinn sé að kólna eftir mikið ris undanfarið eitt og hálft ár.
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 20,6 prósent frá byrjun síðasta árs samkvæmt samantekt Þjóðskrár. Þorri hækkunarinnar átti sér stað eftir að Seðlabanki Íslands lækkaði stýrivexti niður í sögulegt lágmark, 0,75 prósent, og afnám sveiflujöfnunarauka á eigin fé banka, sem þeir nýttu til að stórauka útlán til íbúðarkaupa.
Vegna þessa var ákveðið í júní að hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda lækkað úr 85 í 80 prósent en hámarkshlutfall fyrir fyrstu kaupendur hélst óbreytt í 90 prósent. Í síðasta mánuði ákvað fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands svo að setja reglur um hámark greiðslubyrðar á fasteignalánum og endurvekja sveiflujöfnunaraukann. Stýrivextir hafa sömuleiðis hækkað um 0,75 prósentustig á nokkrum mánuðum og eru nú 1,5 prósent.
Lítið framboð skýri kólnun
Samandregið hafa ofangreindar aðgerðir dregið úr spennu á fasteignamarkaði. Það endurspeglast, samkvæmt HMS, í fækkun kaupsamninga og minni veltu.
Minnkandi umsvif á íbúðamarkaði megi þó líklegast skýra að miklu leyti með litlu framboði af íbúðum til sölu en það hafi haldið aftur af veltu síðustu mánuði og einnig að einhverju leyti miklar verðhækkanir. „Af þeim samningum sem þegar hafa verið þinglýstir voru nær 900 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði með útgáfudag í ágúst. Þeir hafa ekki verið færri síðan í maí 2020 en fyrstu áhrif COVID-19 á fasteignamarkaðinn voru fremur neikvæð til að byrja með. Þótt búast megi við að tölur um fjölda útgefinna samninga hækki örlítið eftir því sem þinglýsingum vindur fram verða þær breytingar að öllum líkindum smávægilegar,“ segir í skýrslu HMS.