Síðastliðna tólf mánuði hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um tíu prósent, samkvæmt íbúðaverðvísitölu Þjóðskrár. Vísitalan stóð í stað milli maí og júní, en aðeins eru tveir dagar síðan vísitalan var uppfærð fyrir maímánuð. Það tafðist vegna verkfalls lögfræðinga hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.
Síðastliðnu þrjá mánuðina fyrir júní 2015 þá hækkaði vísitalan um 0,8 prósent og sex mánuði þar á undan hækkaði hún um fjögur prósent.
Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs. Vísitalan stendur í 428,5 stigum en hún var í gildinu 100 í ársbyrjun 1998. Grafið hér að neðan sýnir þróun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu á nafnverði allt frá ársbyrjun 1998 til dagsins í dag.