Icelandair flutti alls rúmlega 159 þúsund farþega í millilandaflugi í desember og fjölgaði þeim um þrettán prósent milli ára. Félagið hefur birt flutningatölur fyrir síðasta mánuð nýliðins árs, en greining Arion banka tók saman upplýsingar, með sínum greiningum á tölunum, sem Kjarninn hefur undir höndum.
Á árinu 2014 flutti félagið 2,6 milljónir farþega og fjölgaði þeim um 15% á milli ára, samkvæmt greiningu Arion banka. Aukning í framboðnum svokölluðum sætiskílómetrum á árinu 2014 var 16,3% sem er um prósentustigi undir því sem félagið gerði ráð fyrir þegar það kynnti áætlanir um vöxt í millilandaflugi 2014. Sætanýting var 80,4% á árinu og hækkaði um 1,1 prósentustig frá 2013.
Aukning í framboðnum sætiskílómetrum (ASK) var 10,7%, að því er fram kemur í greiningu Arion banka. Sætanýting hækkaði um 2,4 prósentustig, var 78,6% í desember og hefur ekki verið hærri, í það minnsta horft til síðustu fimm ára. Að meðaltali hefur sætanýting síðastliðin fimm ár verið 74% í desember, segir í greiningu Arion banka.
Þessa er fengin úr greiningu Arion banka á tölum Icelandair.