Farþegar í millilandaflugi Icelandair voru 413 þúsund talsins í ágúst. Fjöldinn var þannig nærri meti félagsins sem sett var í júlí síðastliðnum, þegar um 415 þúsund flugu milli landa með Icelandair.
Fjölgun milli ágústmánaða 2014 og 2015 var sautján prósent. Sætanýtingin var 89,2 prósent og jókst um þrjú prósentustig og hefur aldrei verið hærri í ágúst, samkvæmt tilkynningu Icelandair til Kauphallar. Framboðsaukning milli ára nam fjórtán prósentum.
Farþegar í innanlandsflugi og Grænlandsflugi voru 33 þúsund í ágúst og fjölgaði um þrjú prósent á milli ára. Framboð félagsins í ágúst var óbreytt samanborið við ágúst 2014. Sætanýting nam 77,5 prósentum og jókst um 3,4 prósentustig á milli ára. Seldum blokktímum í leiguflugi fjölgaði um 7 prósent á milli ára. Fraktflutningar jukust um 5 prósent frá því á síðasta ári. Fjöldi seldra gistinótta á hótelum félagsins jókst um 3 prósent milli ára. Herbergjanýting var 88,8 prósent samanborið við 88,3 prósent í ágúst í fyrra.