Icelandair og AirBerlin voru stundvísust flugfélaga á Keflavíkurflugvelli í júlí, af þeim fjórum flugfélögum sem fóru fleiri en 50 áætlunarflug í mánuðinum. Í samanburði við mánuðinn á undan þá voru fleiri ferðir á réttum tíma í júlí og meðaltöf styttist hjá öllum nema easyJet. Töf á brottfarartímum WOW air styttist verulega, eða frá nærri 32 mínútum að meðaltali í átta mínútur.
Taflan hér að neðan sýnir hlutfall brottfara og komu á réttum tíma hjá flugfélögunum fjórum í júlí og meðaltöf í mínútum á þeim flugum sem seinkaði. Í sviga eru tölur frá júnímánuði til samanburðar.
Flugfélag | Hlutfall brottfara á réttum tíma | Meðaltöf í mínútum | Hlutfall komu á réttum tíma | Meðaltöf í mínútum |
Icelandair | 76% (73%) | 10,18 (12,09) | 74% (82%) | 13,02 (6,72) |
WOW air | 73% (62%) | 7,96 (31,76) | 69% (62%) | 11,09 (31,73) |
easyJet | 74% (74%) | 10,14 (8,29) | 84% (88%) | 6,7 (3,67) |
AirBerlin | 76% (68%) | 8,91 (11,38) | 87% (94%) | 3,7 (2,26) |
Það er Dohop flugferða-leitarvélin sem tekur saman stundvísistölur flugfélaganna og byggir á gögnum frá Isavia. Fram kemur í tilkynningu frá Dohop að brottfarir Icelandair flugvéla voru samtals 1253 talsins í júlí. Brottfarir véla AirBerlin voru 67 talsins í mánuðinum.
Gríðarlegt álag á Keflavíkurflugvelli, vegna metfjölda ferðamanna og framkvæmda í Leifsstöð, hefur haft áhrif á flug í sumar og á álagstímum hafa myndast langar biðraðir við leitarhliðið. Ef marka má tölur um stundvísi hefur þó gengið betur í júlí en júní að halda áætlun, fleiri flug v0ru á réttum tíma og meðaltöf var styttri.