Icelandair Group tilkynnti í morgun um áherslubreytingar á flugflota félagsins, sem rekur dótturfélögin Icelandair og Flugfélag Íslands. Allar fimm fokker 50 vélar Flugfélags Íslands verða seldar og þrjár Bombardier Q400 vélar koma í staðinn. Þær taka 74 farþega á meðan að Fokker 50 vélarnar tóku 50. Nýju vélarnar eru jafnframt hraðskreiðari og langdrægari og því sér Flugfélag Íslands tækifæri til að nýta þær á öðrum mörkuðum en félagið flýgur nú á, en Flugfélag Íslands sinnir aðallega innanlandsflugi og flugi til Grænlands.
Þá kemur fram í tilkynningunni að tveimur Boeing 757 vélum sem Icelandair er með á leigu verði skilað í haust og þær leystar af hólmi með tveimur Boeing 767-300 vélum. Þær taka mun fleiri farþegar, alls 260 talsins, og eru mun langdrægari. Í tilkynningunni segir að „með þeim munu skapast ný tækifæri fyrir leiðarkerfi Icelandair.“ Nýju vélarnar geti sinnt mörkuðum sem núverandi flugvélakostur getur ekki sinnt og með þeim sjái Icelandair fram á aukin vaxtatækifæri á komandi árum. Vélarnar verða teknar í notkun frá og með vorinu 2016.
Ekki að fara að fljúga til Kína
Aðspurður um hvar þessi nýju tækifæri fyrir leiðarkerfi Icelandair liggja segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, að félagið geti nú skoðað að fljúga til borga sem 757 vélarnar dragi ekki á. „Það getur til dæmis falið í sér að við getum verið að fljúga lengra niður á vesturströnd Bandaríkjanna“.
Hann segir þessa breytingu ekki fela í sér að Icelandair sé að fara að skoða að fljúga til Kína. „Við höfum ekki skoðað það af neinni alvöru. Það er ekki á teikniborðinu.“