Hefðu Lee Buchheit-samningarnir svokölluðu í Icesave-deilunni verið samþykktir þá hefðu heildargreiðslur ríkissjóðs vegna þeirra numið alls um 67 milljörðum króna. Þetta er niðurstaða úttektar Hersis Sigurgeirssonar, dósents í fjármálum við viðskiptafræðadeild Háskóla Íslands. Hún er fengin að gefnu óbreyttu gengi punds og evru næsta árið og að gefinni áætlun slitastjórnar Landsbankans um greiðslu forgangskrafna. Samningarnir væru að fullu uppgreiddir hinn 15. júní 2016. Greiðslur fram til dagsins í dag hefðu numið alls um 59 milljörðum, samkvæmt svari Hersis á Vísindavef Háskóla Íslands við spurningu um kostnað samninganna.
Eins og kunnugt er var samningurinn, gjarnan kallaður Icesave III, við Breta og Hollendinga samþykktur af Alþingi en forseti Íslands neitaði undirskrift og þeir fóru því í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þeim var hafnað. Málið fór fyrir EFTA dómstólinn þar sem Ísland var sýknað af kröfum Breta og Hollendinga.
Í svarinu á Vísindavefnum segir Hersir að allar upplýsingar um samningana séu fengnar úr frumvarpinu sem lagt var fyrir alþingi árið 2011. „Einn stærsti áhrifaþáttur á hugsanlegar greiðslur ríkissjóðs vegna samninganna eru greiðslur forgangskrafna úr slitabúi Landsbankans, bæði fjárhæð þeirra og tímasetning. Því hærri sem greiðslurnar eru í heildina, þeim mun minni hefði skuld Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) í lok tímabilsins verið og greiðsla ríkissjóðs því lægri. Því fyrr sem greiðslurnar berast því hraðar hefði höfuðstóll skuldar TIF lækkað og því vaxtagreiðslur ríkissjóðs orðið lægri,“ segir í svarinu. Hersir segir þá áætlun sem lögð var fram hafa verið nokkuð varfærna. Í dag hafa 86% af forgangskröfum í slitabú Landsbankans verið greiddar út og hófust í lok árs 2011. Slitastjórnin hefur sótt um undanþágu til að greiða um 9% af kröfunum til viðbótar hið fyrsta.
Í lok greinarinnar setur Hersir þann fyrirvara að áætlunin sé sett fram miðað við þá þróun sem hefur orðið síðan samningunum var hafnað. „Hugsanlegt er hins vegar að samþykkt samninganna hefði haft áhrif á þróunina og þá hefði niðurstaðan að sjálfsögðu getað verið önnur. Samþykkt samninganna hefði sem dæmi getað haft áhrif á þróun gengis krónunnar, hvort sem er til styrkingar eða veikingar. Hefði krónan styrkst hefðu greiðslur ríkissjóðs verið lægri en hærri hefði hún veikst. Þá hefði samþykkt samninganna einnig getað haft áhrif á tímasetningar á útgreiðslum úr slitabúi Landsbankans.“