IKEA á Íslandi ætlar að lækka vöruverð í verslun sinni á Íslandi um 2,8 prósent. Ástæður þessa eru þrjár: gengi íslensku krónunnar hefur styrkst gagnvart evru og gert innflutning hagstæðari, kjarasamningar reyndust skaplegri en stefndi í og aukinn ferðamannastraumur hefur styrk þætti verslunar í landinu langt umfram það sem menn hefðu getað gert sér í hugarlund. Þetta er haft eftir Þórarni Ævarssyni, framkvæmdastjóra IKEA á Íslandi í Morgunblaðinu í dag.
Þar skorar Þórarinn á verslunina í landinu að fylgja fordæmi IKEA þar sem efnahagslegar aðstæður hennar séu í flestum tilvikum þær sömu og hjá IKEA. Að hans mati hafi verið lítil innistæða fyrir mörgum þeirra hækkanna sem tilkynnt hafi verið um undanfarið. "Við berum sameiginlega ábyrgð á því að hleypa ekki verðbólgunni á fullan skrið. Það hafa allir í landinu mikla hagsmuni af því að halda aftur af henni. Verslunin í landinu býr við góð skilyrði núna vegna sterkari krónu, aukinnar veltu og þeirra samninga sem náðust fyrr á árinu á vinnumarkaði," segir Þórarinn.
IKEA mun í næstu viku kynna nýjan vörulista og samhliða útgáfu hans skuldbindur fyrirtækið sig til að halda vöruverði á þeim vörum sem þar eru kynntar eins til ágústloka 2016.
Þórarinn segir við Morgunblaðið að þessi aðgerð muni leiða til þess að velta fyrirtækisins dragist töluvert saman. Um eitt prósent af allri kortaveltu landsins fari í gegnum IKEA og því megi gera ráð fyrir að ákvörðunin muni leiða til þess að heildarvelta fyrirtækisins lækki um 200 milljónir króna á því tímabili sem vörulistinn er í gildi.
Hærra verð á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum
Gunnar Bjarni Viðarsson hagfræðingur skrifaði grein á Kjarnann í mars um vöruverð í IKEA á Íslandi í samanburði við verð í versluninni í öðrum löndum. Niðurstaða hans var sú að verðið hér væri 20-30 prósent dýrara en í hinum Norðurlöndunum. Í grein Gunnars sagði: "Hafa verður í huga að virðisaukaskattur í löndunum þremur er ekki sá sami og hér, mismunurinn er 0,5 – 1,5 % á tímabilinu. Einnig ber að nefna, að þar sem IKEA selur fleira en húsgögn, svo sem sjónvörp og fleiri vörur sem mögulega bera vörugjöld þá er samanburðurinn væntanlega óréttlátur út frá sýn seljandans, auk þess sem samanburðartímabilið er stutt. Virðisaukaskattur hér á landi var, eins og kunnugt er, lækkaður úr 25,5% í 24% um áramótin sem og vörugjöld á raftæki afnumin.
Þótti höfundi áhugavert að sjá, að þegar útsölur hófust hér á landi í byrjun ársins, þá minnkaði verðmunur við útlönd um tíu prósentustig.[...]Þetta sýnir að útsöluáhrif voru meiri hér á landi samanborið við verðþróunina erlendis. Þess má þó geta að þrátt fyrir útsöluna á Íslandi þá var verðið samt sem áður lægra á hinum Norðurlöndunum. Húsgögn og heimilisbúnaður hafa um 4,6% vægi í vísitölu neysluverðs. Tuttugu prósent lækkun á verði þessa flokks myndi þýða lækkun vísitölunnar upp á 0,9% sem aftur myndi lækka verðtryggð lán og auka kaupmátt um sömu upphæð".