Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að sér finnist framganga fréttamanna á fréttastofu RÚV, sem sagt var frá í Fréttablaðinu í morgun, "nokkuð sérstök". Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem Illugi birti á Facebook í dag. Þar segir ennfremur: "Í hádegisfréttum á laugardeginum hafði verið fjallað um tengsl mín við fyrirtækið Orka Energy í samhengi við Greco nefndina. Eftir að hafa rætt málin við vini mína og ráðgjafa tók ég þá ákvörðun að biðja um að fá að koma í viðtal til að ræða þessi mál. Ég tók einnig þá ákvörðun að segja frá því í viðtalinu að ég hefði neyðst til að selja íbúðina mína. Ég vissi vel að fyrr eða síðar myndi það mál koma upp, enda öll gögn þar um opinber. En sú staðreynd að ég hafi neyðst til að selja íbúðina okkar er viðkvæmt persónulegt mál og ég var ákveðinn í því að enginn annar en ég sjálfur myndi greina frá því. Það má vel vera að þar með hafi einhver fjölmiðill misst af "skúbbi" dagsins. Það verður þá svo að vera."
Mér finnst framganga fréttamanna á fréttastofu Ríkisútvarpsins sem getið er um á síðum Fréttablaðsins nokkuð sérstök. Í...Posted by Illugi Gunnarsson on Tuesday, April 28, 2015
Sagði að RÚV væri "okkar útvarp"
Fréttablaðið greindi frá því í morgun að Sigríður Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra, hefði haft samband við fréttastofu RÚV á sunnudag og beðið um að ráðherranum yrði gert kleift að tjá sig í framhaldi af frétt í hádegisfréttum miðilsins á laugardag um að GRECO, hópur ríkja gegn spillingu hefði gagnrýnt Ísland fyrir að bregðast ekki við tillögum um hagsmunaskráningu þingmanna. Sigríður sagði við vaktstjóra fréttastofunnar, Ragnhildi Thorlacius, að hún væri að hafa samband vegna þess að RÚV væri „okkar útvarp“. Fréttamenn á RÚV eru sagðir ósáttir við þessi vinnubrögð aðstoðarmannsins við að koma á viðtali við Illuga.
Í Fréttablaðinu er eftirfarandi haft eftir Ragnhildi: „Síðan segir hún eitthvað á þá leið að hún sé að hafa samband af því að „þið eruð útvarpið okkar“. Ég hvái og segi: við erum í eigu þjóðarinnar. Þá segir hún að þetta sé stofnun sem heyrir undir menntamálaráðuneytið. Ég segi að ég sjái ekki hvernig það komi málinu við. Og hún segir að það sé engin dýpri merking á bak við það. Það er það sem okkar fer á milli. Svo lýkur þessu samtali.“
Stundin var þegar búin að spyrja um tengslin
Í fréttinni um GRECO höfðu tengsl Illuga við Orku Energy, sem hafa verið mikið í fréttum undanfarið, verið nefnd. Hann vildi, líkt og áður sagði, fá að bregðast við því. Í viðtalinu sem fréttamaður tók við Illuga greindi hann hins vegar frá því að stjórnarformaður Orku Energy hefði keypt íbúð hans og leigt honum hana aftur. Ástæðan hafi verið fjármálaerfiðleikar sem Illugi og eiginkona hans rötuðu í síðustu ár vegna tekjuleysis og gjaldþrots fyrirtækis sem hann átti hlut í. Illugi sagðist með þessu vilja eiga frumkvæði að því að upplýsa um tengslin.
Í frétt Fréttablaðsins er haft eftir Ragnhildi að þessi ummæli aðstoðarmanns Illuga hafi ekki haft nein áhrif á að ákveðið hafi síðan verið að birta viðtalið við hann. Hins vegar hafi fréttamönnum RÚV ekki verið kunnugt um það að fjölmiðillinn Stundin hefði lagt fram fyrirspurn til ráðherra varðandi eignarhaldsfélagið OG Capital, sem á íbúðina sem ráðherrann býr í og er nú er í eigu stjórnarformanns Orka Energy, en var áður í eigu Illuga.