Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur birt skattframtal sitt og eiginkonu sinnar vegna ársins 2012 og 2013 á Facebook. Tilefnið er frétt Stundarinnar frá því fyrr í dag þar sem sagt var frá því að Illugi hefði fengið greiðslu frá Orku Energy síðla árs 2012.
Í stöðuuppfærslu Illuga segir: "Vegna fréttar Stundarinnar frá því í dag, sem byggð er á ónafngreindum heimildarmanni, hef ég ákveðið að stíga það skref að birta upplýsingar úr skattframtali okkar Brynhildar vegna ársins 2012 og ársins 2013. Skattframtöl okkar eru unnin af löggiltum endurskoðanda. Þar koma launagreiðslur til okkar hjóna fram og þar sést að árið 2012 fæ ég laun frá Orku Energy upp á kr. 5.621.179 eins og ég hafði áður greint frá og sýnt launaseðil fyrir. Engar launagreiðslur, arðgreiðslur eða aðrar greiðslur eru til mín eða konu minnar frá fyrirtækinu OG Capital á árinu 2012 eða á árinu 2013. Á árinu 2013 fór félagið úr minni eigu."
Vegna fréttar Stundarinnar frá því í dag, sem byggð er á ónafngreindum heimildarmanni, hef ég ákveðið að stíga það skref...Posted by Illugi Gunnarsson on Wednesday, October 14, 2015
Auglýsing
Í frétt Stundarinnar sagði að ráðgjafafyrirtæki Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, OG Capital ehf., hafi fengið 1,2 milljóna króna greiðslu frá Orku Energy árið 2012. Greiðslan hafi farið fram síðla árs 2012 en Illugi hafði þá sest aftur á Alþingi eftir að hafa verið í leyfi frá störfum frá apríl 2010 til október 2011. Greiðslan var verktakagreiðsla en ekki launagreiðsla, samkvæmt frétt Stundarinnar. Illugi svarar því ekki í stöðuuppfærslu sinni hvort það sé rétt að OG Capital hafi fengið greiðslu frá Orku Energy, líkt og fram kom í frétt Stundarinnar.
Illugi hefur sagt opinberlega að hann hafi aðeins fengið 5,6 milljóna launagreiðsluna frá Orku Energy og að sú greiðsla hafi verið vegna vinnu sem hann vann árið 2011.