Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur fallið frá áformum um frekari lækkun útvarpsgjaldsins á árinu 2016. Útvarpsgjaldið er helsta tekjulind Ríkisútvarpsins (RÚV). Hann hefur þegar tilkynnt þetta í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og undirtökur þingmanna við þessum áformum voru misjafnar. Enn fremur hefur Illugi skipað þriggja manna nefnd, sem Eyþór Arnalds leiðir, sem ætlað er að fara yfir rekstur RÚV undanfarin ár. Nefndin á að skila niðurstöðum sínum í sumar. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Illugi Gunnarsson, mennta og menningarmálaráðherra Íslands.
Mikið fjaðrafok var í kringum RÚV í lok síðasta árs eftir að tilkynnt var að fyrirtækið, sem er með tæpa sex milljarða króna í rekstrartekjur á þessu rekstrarári að meðtöldum auglýsingatekjum, myndi fá útvarspgjaldið óskert (áður hafði hluti þess verið notaður til annarra verkefna ríkissjóðs) en að það yrði lækkað. Árið 2014 var það 19.400 krónur á hvern greiðenda, en er 17.800 krónur í ár. Árið 2016 átti það að lækka enn frekar og verða 16.400 krónur. Stjórnendur RÚV sögðust einungis geta rekið RÚV og sinnt lögbundnu hlutverki þess ef fyrirtækið fengi útvarspgjaldið óskert og með því að selja eignir upp í skuldir. Hávær mótmæli urðu gegn því sem kallað var aðför að RÚV. Stjórnarmeirihlutinn stóð hins vegar fast á sínu og fjárlög voru samþykkt með lækkunina innanborðs. Nú hefur mennta- og menningarmálaráðherra hætt við að lækka útvarpsgjaldið frekar.
Skera þarf verulega niður
Í Morgunblaðinu segir að þriggja manna embættismannanefnd frá forsætis-, fjármála- og menntamálaráðuneyti hafi skoðað stöðu Ríkisútvarpsins og rekstur að undanförnu, til þess að stjórnvöld hefðu sjálfstæða mynd af því hver raunveruleg staða stofnunarinnar væri. Niðurstaðan sé sú að staðan sé jafnslæm og stjórnendur RÚV hafa sagt hana vera. Þrátt fyrir að útvarpsgjaldið yrði óbreytt, 17.800 krónur, þyrfti samt að skera verulega niður.
Ónefndur þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir við Morgunblaðið að ljóst verði að ekki verði allir þingmenn sáttir með þá ákvörðun Illuga að hætta við að skera niður útvarpsgjaldið.