Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, seldi húsið sitt til stjórnarformanns Orku Energy vegna fjárhagserfiðleika skömmu eftir efnahagshrunið, og leigir það af honum núna. Í samtali við fréttastofu RÚV, sem greindi fyrst frá málinu í hádegisfréttum í dag, kveðst Illugi vilja upplýsa um málið til að hafa öll möguleg tengsl uppi á borðum.
Í samtali við RÚV segir Illugi að hann hafi selt húsið sitt til að bjarga því, og fullyrðir að málið hafi ekki haft áhrif á störf sín sem mennta- og menningarmálaráðherra.
Forsvarsmenn Orku Energy fóru með Illuga til Kína á dögunum, sem hefur vakið umtal ekki síst fyrir þær sakir að hann vann ráðgjafarstörf fyrir orkufyrirtækið á meðan hann tók sér frí frá þingstörfum vegna fyrri starfa hans fyrir Glitni. Illugi hefur fullyrt að ferðin hafi ekki verið farin sérstaklega fyrir fyrirtækið, hann hafi heimsótt, ásamt þremur rektorum og forstjóra Rannsóknarmiðstöðvar Íslands (Rannís), háskóla og vísindastofnanir. Þá hafi forsvarsmenn Orku Energy verið með þar í för á eigin vegum. Illugi segir að hann hafi ekki gert meira fyrir umrætt fyrirtæki en fyrri ráðherrar.
Hafði litlar tekjur utan þings og var í vandræðum
Í samtali við RÚV sagði Illugi að hann hafi lent í fjárhagserfiðleikum eftir hrun, ábyrgðir hafi lent á honum eftir að fyrirtæki tengdaföður hans varð gjaldþrota. Þá hafi hann haft litlar tekjur þegar hann var utan þings. Í frétt RÚV sagði Illugi: „Það gerði það bara að verkum að við stóðum frammi fyrir því við hjónin að við vorum að missa íbúðina okkar og þurftum eiginlega að velja á milli þess að missa hana eða selja, og þetta er staða sem þúsundir og aftur þúsundir Íslendinga hafa staðið frammi fyrir á undanförnum árum. Það sem ég gerði var að ég seldi íbúðina mína, það er þinglýstur samningur.“
Illugi ákvað að upplýsa um tengsl sín við umrætt fyrirtæki að eigin frumkvæði.