Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segir fullt tilefni til að endurskoða útlánakerfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Eins og Kjarninn greindi frá í gær hafa meðalnámslán hjá LÍN hækkað en meðalafborganir lækka og vanskil aukast. Þá er mikill munur á því hversu hátt hlutfall lána sinna fólk greiðir til baka. Þeir sem skulda mest borga lægst hlutfall til baka og ríkið styrkir þá mest.
„Það er styrkjakerfi fólgið í íslenska námslánakerfinu en það er engin alvöru stefnumótun á bak við hvernig þeim styrkjum er úthlutað eða til hverra þeir renna,“ segir Illugi við Fréttablaðið. Það sé áhyggjuefni að sjá að vanskil aukast og það þurfi að hafa þann þátt í huga þegar lögin verði endurskoðuð.
Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri lánasjóðsins, kallar eftir umræðu um það hvort breyta þurfi lánakerfinu. „Viljum við setja aldurstakmörk á hvenær þú getur fengið lán? Átt þú að geta fengið lán eftir sextugt? Á að setja þak á upphæð námslána? Á að breyta afborgunarskilyrðunum með einhverjum hætti?“ segir hún meðal annars.