Íbúðalánasjóður lánaði 423 milljónir króna í almenn útlán í janúar síðastliðnum. Á sama tíma greiddu viðskiptavinir sjóðsins upp 1,9 milljarða króna af lánum hans. Þetta er þróun sem hefur verið að eiga sér stað undanfarin ár og hefur aldrei verið verri en í fyrra. Þá lánaði sjóðurinn einungis út tæpa 4,7 milljarða króna á meðan að viðskiptavinir borguðu upp 26,3 milljarða króna af lánum sínum. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslum Íbúðarlánasjóðs. Í þeim er upplýst um hver almenn útlán sjóðsins voru í hverjum mánuði fyrir sig og hversu háar uppgreiðslur á lánum sjóðsins voru.
Viðskiptavinir sjóðsins eru því að greiða upp rúmlega fimm krónur af lánum fyrir hverja eina krónu sem er tekin að láni hjá sjóðnum.
Tugmilljarðar króna úr ríkissjóði
Vandi Íbúðalánasjóðs hefur vart farið framhjá neinum. Frá árinu 2009 hefur ríkissjóður þurft að leggja sjóðnum til 53,5 milljarða króna til að halda honum gangandi. Gert er ráð fyrir að árlegt tap sjóðsins verði um eða yfir þrír milljarðar krona næstu fimm árin, eða um 15 milljarðar króna hið minnsta.
Íbúðalánasjóður lánar bæði húsnæðislán, sem eru svokölluð almenn íbúðarlán, og til byggingaframkvæmda. Í skýrslum sem sjóðurinn birtir á heimasíðu sinni mánaðarlega er rakið hversu mikið hann lánar út í hverjum mánuði og hversu háa fjárhæð skuldarar hans hafa ákveðið að greiða upp meðal annars vegna þess að þeir eru að taka ný húsnæðislán hjá viðskiptabanka og þar af leiðandi að hætta í viðskiptum við Íbúðalánasjóð.
Einn tíundi af útlánum ársins 2008
Alls nema uppgreiðslur á lánum Íbúðalánasjóðs frá ársbyrjun 2009 og til loka síðasta árs 101,5 milljörðum króna. Í janúar bættust svo 1,9 milljarðar króna við.
Fjárhæð útlána hefur á sama tíma dregist mjög skarpt saman. Þau voru 48,8 milljarðar króna á árinu 2008 en hafa dregist skarpt saman síðan. Í fyrra voru þau einungis um 4,7 milljarðar króna, eða tæplega einn tíundi af því sem sjóðurinn lánaði árið 2008. Ekki byrjaði árið í ár vel. Útlán Íbúðalánasjóðs í janúar voru 474 milljónir króna. Það er 32 milljónum króna minna en sjóðurinn lánaði út í janúar 2014.