Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík, hefur hlotið rannsóknarstyrk frá Evrópusambandinu að upphæð tvær milljónir evra eða um 300 milljónir íslenskra króna. „Um gríðarlega viðurkenningu er að ræða, fyrir áratuga starf Ingu Dóru Sigfúsdóttur, fyrir íslenskt fræðasamfélag og Háskólann í Reykjavík,“ segir í fréttatilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík.
Inga Dóra er annar Íslendingurinn sem hlýtur styrk frá European Research Council (ERC) og er afar sjaldgæft að fræðimenn sem einstaklingar fái svo stóran styrk en það er Inga Dóra sjálf sem stendur á bak við umsóknina. Þeir sem til þekkja segja að það megi líkja þessu við að fá Nóbelsverðlaun í rannsóknarstarfi enda hafa margir Nóbelsverðlaunahafar jafnframt hlotið ERC-styrki.
Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, fagnar styrknum sérstaklega í fréttatilkynningu og segir hann mikla viðurkenningu fyrir skólann og Ingu Dóru. „Við í Háskólanum í Reykjavík erum gríðarlega stolt og ánægð með þá viðurkenningu sem felst í þessum styrk. Það eru aðeins allra fremstu háskólar og allra bestu vísindamenn Evrópu sem fá þessa styrki frá Evrópusambandinu. Þetta er því mikil viðurkenning á því mikilvæga rannsóknarstarfi sem Inga Dóra hefur stýrt hér í mörg ár. Við óskum henni hjartanlega til hamingju með styrkinn og heiðurinn sem honum fylgir, en hún er mjög vel að þessu komin,“ segir Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík.
Inga Dóra er prófessor við sálfræðisvið viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík og jafnframt prófessor við Columbia háskóla í New York. Hún hefur í samstarfi við aðra fræðimenn stundað rannóknir á líðan, hegðun og heilsu barna og unglinga í 20 ár. Stór liður í þeim rannsóknum er könnun sem lögð er fyrir íslensk ungmenni á hverju ári til að fá vitneskju um heilsu þeirra, hegðun og líðan.