Ingi Freyr Vilhjálmsson, ritstjórnarfulltrúi á DV, hefur sagt upp störfum á miðlinum. Þetta hefur Kjarninn eftir öruggum heimildum. Hann bætist þar með í hóp fjölmargra blaðamanna sem hafa annað hvort sagt upp störfum eða verið reknir síðan að nýir eigendur tóku við miðlinum í desember. Á meðal þeirra sem sagt hafa upp störfum á DV síðustu daga eru Jóhann Páll Jóhannsson og Jón Bjarki Magnússon, sem hlutu blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir umfjöllun sína um lekamálið fyrir tæpu ári.
Í desember tók hópur nýrra eigenda, undir forystu Björns Inga Hrafnssonar, yfir DV. Á meðal þeirra sem eru í hópnum með Birni Inga eru Sigurður G. Guðjónsson og Jón Óttar Ragnarsson. Þrír nýir ritstjórar voru ráðnir í kjölfarið, þau Eggert Skúlason, Kolbrún Bergþórsdóttir og Hörður Ægisson, sem verður viðskiptaritstjóri. Hallgrímur Thorsteinsson, sem hafði verið ritstjóri DV frá því í september var sagt upp því starfi og sagt að hann myndi þess í stað leiða stefnumótum á sviði talmálsútvarps á vegum Pressunnar. Síðar hefur komið fram að hann ætlar að vinna upp uppsagnarfrest sinn og síðan hætta að starfa fyrir félagið.
Ingi Freyr hefur verið einn mest áberandi blaðamaður DV undanfarin ár. Hann hefur skrifað leiðara og leitt umfjöllun blaðsins um efnahagshrunið og afleiðingar þess.Ingi Freyr var lengi vel fréttastjóri blaðsins en var gerður að ritstjórnarfulltrúa þegar hann fluttist til Svíþjóðar árið 2013. Hann hefur unnið þaðan síðan. Ingi Freyr hefur nokkrum sinnum verið tilnefndur til blaðamannaverðlauna Blaðamannafélags Íslands og skrifað eina bók, Hamskiptin - þegar allt varð falt á Íslandi, sem kom út í fyrra.