Ingi Freyr Vilhjálmsson, fyrrum ritstjórnarfulltrúi á DV, hefur hafið störf á fjölmiðlinum Stundinni. Hann sagði upp störfum á DV í janúar og hefur síðan þá ekki starfað hjá neinum íslenskum fjölmiðli. Ingi Freyr greindi frá þessu í stöðuuppfærslu á Facebook í dag.
Kæru Facebook-vinir. Ég er byrjaður að vinna á Stundinni eftir nokkurra mánaða hlé frá blaðamennsku. Ábendingar um fréttir eru vel þegnar. Netfangið er: ingi@stundin.isPosted by Ingi Freyr Vilhjalmsson on Monday, April 13, 2015
Ingi Freyr var á meðal fjölmargra blaðamanna sem annað hvort sögðu upp störfum eða voru reknir eftir að nýir eigendur tóku við DV í desember. Á meðal þeirra sem sögðu upp störfum á DV voru Jóhann Páll Jóhannsson og Jón Bjarki Magnússon, sem hlutu blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir umfjöllun sína um lekamálið, síðastliðin tvö ár.
Ingi Freyr var einn mest áberandi blaðamaður DV árum saman. Hann skrifaði leiðara og leiddi umfjöllun blaðsins um efnahagshrunið og afleiðingar þess. Ingi Freyr var lengi vel fréttastjóri blaðsins en var gerður að ritstjórnarfulltrúa þegar hann fluttist til Svíþjóðar árið 2013. Hann býr þar enn og mun starfa fyrir Stundina þaðan. Ingi Freyr hefur nokkrum sinnum verið tilnefndur til blaðamannaverðlauna Blaðamannafélags Íslands og skrifað eina bók, Hamskiptin – þegar allt varð falt á Íslandi, sem kom út í fyrra.