Innanríkisráðuneytið mun ekki áminna Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, vegna úrskurðar Persónuverndar þess efnis að hún hafi farið í bága vil lög við miðlun persónuupplýsinga. Sú miðlun átti sér stað í nóvember 2013 þegar Sigríður Björk var lögreglustjóri á Suðurnesjum og lét Gísla Frey Valdórssyni, fyrrum aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þá innanríkisráðherra, í té upplýsingar um hælisleitandann Tony Omos og fleiri.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir við Fréttablaðið í dag að málið muni ekki hafa nein frekari eftirmál og að Sigríður Björk verði ekki áminnt, en áminning er stjórnsýslulegt úrræði sem notast er við hafi embættismaður brotið starfsskyldur sínar með einhverjum hætti. Ólöf segist meta málið svo að Sigríður Björk hafi afhent umrædd gögn í góðri trú.
Vantar formfestu
Í samtali við Kjarnann í gær sagði Ólöf að athugasemdir, sem fram hafi komið í málinu, allt frá upphafsstigum, séu alvarlegar enda undirliggjandi það atriði að einstaklingar verði að geta treyst stjórnsýslunni þegar kemur að meðferð upplýsinga. „Það er ýmislegt sem við þurfum að fara í gegnum, t.d. er varðar aðstoðarmenn ráðherra og hvernig þeir eiga að fara með gögn almennt og eftir hvaða verkferlum á að vinna. Þessi vinna er þegar komin af stað og mikilvægt að hún verði unnin faglega. Ég hef talað mjög eindregið fyrir því að formfestan varðandi þessi mál öll verði aukin, eins og áður segir, og stjórnsýslan þar með bætt,“ segir Ólöf.
"Ekkert verið að fjalla um það"
Í fréttum RÚV í gær var Ólöf spurð út í þá stöðu að Sigríður Björk hafi aldrei greint lögregunni á höfuðborgarsvæðinu frá samskiptum sínum við Gísla Frey þessa daga í nóvember 2013 þrátt fyrir að hún hefði haft ætlaðan leka á upplýsingum um sama fólk til rannsóknar mánuðum saman.
Tryggvi Aðalbjörnsson, fréttamaður á RÚV, spurði Ólöfu: "Skapar það enga tortryggni að hún hafi ekki látið rannsóknaraðila vita að hún hafði þessi gögn undir höndum?
„Við erum ekkert að fjalla um það. Við erum að fjalla hér um það hvort hún hafi mátt afhenda gögnin og undir hvaða kringumstæðum það var gert. Og hér er verið að vekja athygli á því hversu mikilvægt er að það sé allt rétt með farið,“ svaraði Ólöf.