Innanríkisráðuneytið hefur synjað beiðni Kjarnans um nánari upplýsingar varðandi fjölmiðlaráðgjöf sem ráðgjafarfyrirtækið Argus veitti ráðuneytinu á síðasta ári vegna Lekamálsins.
Eins og Kjarninn greindi fyrstur frá í gær, greiddi ráðuneytið tæplega 2,4 milljónir króna fyrir ráðgjöfina, sem samsvarar ríflega 133 útseldum klukkustundum miðað við meðalverð fyrir aðkeypta fjölmiðlaráðgjöf, eða ríflega þriggja vikna vinnu ráðgjafa í beit.
Kjarninn sendi Jóhannesi Tómassyni, upplýsingafulltrúa innanríkisráðuneytisins, tölvupóst í dag þar sem óskað var upplýsinga um hvenær umrædd fjölmiðlaráðgjöf var veitt. Nánar tiltekið óskaði Kjarninn eftir upplýsingum um hvaða daga ráðgjöfin var veitt ráðherra. Í skriflegu svari upplýsingafulltrúa ráðuneytisins segir: „Sælir - get ekkert annað sagt en að reikningar frá Argus vegna ráðgjafar dreifast yfir mikinn hluta ársins 2014.“
Þá óskaði Kjarninn eftir upplýsingum um hversu oft Argus veitti innanríkisráðuneytinu þjónustu, hvað hæsti reikningurinn frá Argus hafi hljóðað upp á háa fjárhæð, og hvenær hann hafi verið dagsettur. Sömuleiðis óskaði Kjarninn eftir afrit af umræddum reikningi.
Í svari upplýsingafulltrúa innanríkisráðuneytisins, sem sent var Kjarnanum í tölvupósti klukkan 14:50 í dag segir: „Sælir - birtum ekki sundurliðun.“ Tölvupósti Kjarnans, þar sem óskað var skýringa á afstöðu ráðuneytisins, hafði ekki verið svarað við vinnslu þessarar fréttar.