Innkoma 365 miðla á internetmarkaðinn hefur ekki breytt honum mikið. Síminn er enn allsráðandi á þeim markaði og bætir við sig markaðshlutdeild, Vodafone tapar tæplega 1.800 viðskiptavinum á milli ára en er samt með mjög sterka stöðu sem næst stærsta fyrirtækið á þessum markaði. Saman voru þessi tvö fyrirtæki, Síminn og Vodafone, með 81,2 prósent markaðshlutdeild í lok júní síðastliðins þegar fjöldi nettenginga er skoðaður eftir fyrirtækjum. Þetta kemur fram í nýrri tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar sem birt var í lok síðustu viku.
Alls voru 116.606 nettengingar á Íslandi um mitt ár 2014. Þeim hafði fjölgað um tæplega 2.300 á milli ára. Tæplega 60 þúsund þessarra tenginga eru hjá Símanum, sem þýðir að hann er með 51,2 prósent markaðshlutdeild. Fyrirtækið bætir við sig tæplega 2.000 viðskiptavinum á milli ára.
Vodafone er næst stærst á netmarkaðnum þrátt fyrir að tengingum hjá fyrirtækinu fækki um tæplega 1.800 milli ára. Markaðshlutdeild Vodafone er enn 30 prósent, en var 32,2 prósent á sama tíma í fyrra.
Tal tapar og 365 miðla ná ekki miklu til sín
Tal, sem er þriðja stærsta fyrirtæki landsins sem selur nettengingar, tapar hlutfallslega mikilli markaðshlutdeil á milli ára. Viðskiptavinum fyrirtækisins fækkaði um tvö þúsund og eru nú einungis 9.217. Markaðshlutdeild Tals er 7,9 prósent.
Fyrirtækið Hringdu bætir lítilega við sig á milli ára og er nú tæpur hálfdrættingur á við Tal.
365 miðlar hófu að bjóða upp á fjarskiptaþjónustu með síma og interneti í fyrrahaust. Nýja tölfræðiskýrslan er því sú fyrsta sem sýnir árangur fyrirtækisins í sölu á nettengingum.
365 miðlar hófu að bjóða upp á fjarskiptaþjónustu með síma og interneti í fyrrahaust. Nýja tölfræðiskýrslan er því sú fyrsta sem sýnir árangur fyrirtækisins í sölu á nettengingum. Fjöldi þeirra tenginga sem fyrirtækið hefur náð að selja er ekki sérstaklega tilgreindur í skýrslunni heldur er hann settur undir liðinn „Aðrir“ ásamt öðrum söluaðilum nettenginga utan við Símann, Vodafone, Tal og Hringdu. Fjöldi nettenginga undir þeim lið eykst um rúmlega 3.500 á milli ára og var 8.522 í lok júní síðastliðins. Því er ljóst að innkoma 365 miðla á internetmarkaðinn hefur að minnsta kosti ekki orsakað eðlisbreytingu á honum.
Fyrirtækið á langt í land með að komast nálægt Símanum og Vodafone, jafnvel þótt fyrirhuguð sameining þess við Tal, með sína rúmlega níu þúsund viðskiptavini, gangi eftir. Vert er þó að taka fram að einungis er liðið um eitt ár síðan að 365 miðlar hófu að bjóða netþjónustu. Í krafti gífurlega sterkrar stöðu fyrirtækisins á sjónvarpsmarkaði, og þess að það sameinar áskrift af sjónvarpi og sölu á netáskriftum í tilboðum, gæti markaðshlutdeild þess vaxið hratt á næstu misserum.