Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að trúnaðarupplýsingum um afnám hafta hafi verið lekið í DV af einhverjum úr innsta hring ríkisstjórnarinnar og ráðgjafa hennar. Það hafi verið ástæða þess að Seðlabankinn óskaði eftir að Alþingi kæmi saman til skyndifundar í gærkvöldi, á sunnudegi. "Innsti hringurinn míglekur raunar, því viðskiptaritstjóri DV hefur allajafna meiri upplýsingar en almennir ráðherrar um stöðuna – og miklu meiri en nokkur þingmaður.Gera menn sér grein fyrir hvað þetta þýðir? – Í miðju framkvæmdavaldsins er trúnaður brotinn. Upplýsingum, sem geta skaðað stöðu Íslands gagnvart kröfuhöfum er lekið. Trúnaðarbrotið er það alvarlegt að það þarf skyndifund Alþingis til að koma í veg fyrir skaða," sagði Össur í stöðuuppfærslu á Facebook í nótt. Viðskiptaritstjóri DV er Hörður Ægisson sem hefur skrifað fjölmargar fréttir undanfarin misseri sem byggja á trúnaðarupplýsingum úr haftalosunarstarfinu.
Alþingi kvatt saman út af leka í DVTrúnaðarupplýsingum um afnám gjaldeyrishafta var lekið í DV af einhverjum úr innsta...Posted by Össur Skarphéðinsson on Sunday, June 7, 2015
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, sagði í þingræðu í gær að fulltrúar Seðlabankans hafi tilgreint það sérstaklega á fundi efnahags- og viðskiptanefndar að ástæða þess að verið væri að gera breytingar á gjaldeyrislögum með afbrigðum á sunnudegi væri leki á upplýsingum um haftaáætlun stjórnvalda, sem hafi birst sem frétt í DV á föstudag. Lekin hafi leitt til skjálfta í kerfinu og Seðlabankinn hafi fundið aukin þrýsting um að hjáleiðir til að reyna að sleppa út með fjármuni áður en áætluninni yrði hrint í framkvæmd væru í undirbúningi. „Þarna á sér stað hættulegur, raunverulegur og skaðlegur leki,“ sagði Steingrímur.
Steingrímur benti í ræðu sinni á að ekki gæti það hafa verið stjórnarandstaðan sem hafi lekið upplýsingunum, enda hefði samráðshópur um losun hafta ekki verið kallaður saman í sex vikur. Stjórnarandstaðan hefði því engar upplýsingar um málið til að leka. Hún læsi bara um það í DV eins og aðrir.
Í apríl sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á þingi að fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna hafi verið haldið upplýstum um gang mála varðandi vinnu við afnám hafta í gegnum pólitísku samráðsnefnd, en að trúnaðarbrestur hafi orðið eftir fund samráðsnefndarinnar í desember og í kjölfarið hafi upplýsingagjöf verið breytt. Nefndi hann sérstaklega Árna Pál Árnason, formanns Samfylkingarinnar, í þeim efnum. Þau ummæli vöktu mikla reiði stjórnarandstöðuþingmanna.
Steingrímur rifjaði þessi ummæli upp í ræðu sinni í gærkvöldi og sagðist telja að forsætisráðherra væri maður að meiri ef hann myndi biðja stjórnarandstöðuna afsökunar á þeim ósæmilegu ásökunum sem hann hafði uppi í garð hennar um leka. Sérstaklega í ljósi þess leka sem hafi orðið til DV á föstudag. Steingrímur bað Sigmund Davíð einnig um að útskýra hvernig svona leki gæti átt sér stað, beint í gegnum nafngreindan blaðamann.