Lífskjararannsókn Hagstofunnar var birt í gær. Niðurstaða hennar sýndi nokkrar ánægjulegar staðreyndir. Í fyrsta lagi að dreifing tekna á Íslandi er með þeim minnstu í Evrópu og í öðru lagi að lægra hlutfall landsmanna, 11,1 prósent, er undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun en í nokkru öðru Evrópuríki á árinu 2014. Raunar dreifðust tekjur á Íslandi jafnar milli fólks á síðasta ári en nokkru sinni hefur sést í lífskjararannsókn Hagstofunnar sem var fyrst framkvæmd árið 2004.
Þetta er árangur sem Íslendingar mega vera stoltir af, sérstaklega í ljósi þeirra efnahagslegu hremminga sem landið hefur gengið í gegnum á undanförnum árum og hefðu svo auðveldlega getað skilið okkur eftir í veruleika sem á ekkert skylt við þann sem við búum í í dag. Allar ríkisstjórnir sem setið hafa frá hruni, sú sem setti neyðarlögin, setti höft og samdi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sú sem tókst á við afleiðingarnar og sú sem nú situr og vinnur að uppbyggingunni, geta allar klappað sér á bakið fyrir árangurinn.
Það er þó umhugsunarefni að þjóðin upplifir ekki að á Íslandi ríki jöfnuður. Sú upplifun er raunveruleg en snýst mun fremur um skiptingu auðs og arðs en launatekjujöfnuð. Fólki finnst eins og kökunni sé verulega misskipt milli þeirra sem auðgast gríðarlega á íslenskri framleiðslu, t.d. sjávarútvegi, og þeim sem þiggja laun fyrir að skapa hana. Sú upplifun elur á mikilli sundrungu í íslensku samfélagi.