Ísland er eitt fjögurra Evrópuríkja sem hafa ekki fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samningurinn hefur verið fullgiltur í 153 ríkjum, var undirritaður fyrir hönd Íslands í mars 2007 en hefur ekki verið fullgiltur. Öryrkjabandalag Íslands, ÖBÍ, vekur athygli á þessu en bandalagið hefur hrint af stað undirskriftarsöfnun þar sem skorað er á stjórnvöld að fullgilda samninginn. Stefnt er að því að ná minnst 30 þúsund undirskriftum.
Hin Evrópuríkin þrjú sem ekki hafa fullgilt samninginn eru Finnland, Írland og Holland. „Í samningnum er lögð áhersla á að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra,“ segir í yfirlýsingu sambandsins. Á vefsíðu ÖBÍ er meðal annars að finna myndband sem skýrir eðli samningsins um réttindi fatlaðs fólks frekar. Undirskriftarsöfnun sambandsins fer jafnframt fram á vefsíðu ÖBÍ.