Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu situr í 23. sæti á nýjum lista FIFA yfir bestu karlalandslið heims sem birtur var í morgun og hefur aldrei komist ofar á listann. Ísland er auk þess efst allra Norðurlanda á listanum, einu sæti ofar en Danmörk. Í sætinu fyrir ofan Ísland er sjálft Frakkland, sem urðu heimsmeistarar árið 1998 og eru með stærstu knattspyrnuþjóðum Evrópu.
Á meðal þjóða sem eru neðar á listanum en Ísland eru Úkraína, Rússland, Svíþjóð og Bandaríkin.
Ísland hefur einu sinni áður náð því að vera efst Norðurlandaþjóða á listanum. Það var í október 2014, þegar liðið komst í fyrsta sinn á meðal 30 bestu knattspyrnuþjóða í heimi.
Ástæða þess að Ísland tekur gott stökk á listanum nú er sigur liðsins á Tékkum í síðasta mánuði. Eftir þann sigur situr íslenska liðið í efsta sæti síns undanriðils fyrir evrópumeistaramótið í knattspyrnu sem fram fer í Frakklandi næsta sumar með 15 stig.