Ísland er í 28. sæti á nýbirtum styrkleikalista FIFA, alþjóðaknattspyrnusambandsins, sem var gerður opinber rétt í þessu. Ísland hefur aldrei verið ofar á listanum. Næsta Norðurlandaþjóð á listanum er Danmörk (32. sæti) og Svíþjóð (39. sæti). Norðmenn hafa mátt muna fífil sinn fegurri og sitja í 68. sæti þrátt fyrir að hafa stokkið upp um átta sæti á milli mánaða. Einungis 16 Evrópuþjóðir eru betri en Ísland í knattspyrnu samkvæmt listanum.
Líkt og Kjarninn greindi frá í morgun var nokkuð ljóst að Ísland myndi verða á meðal 30 bestu knattspyrnuþjóða heims þegar listinn kæmi út. Það hefur nú verið staðfest.
Nýja-Sjáland í gamla sæti Íslendinga
Engin breyting er á toppnum. Þýskaland er áfram besta knattspyrnulið í heimi, Argentína það næst besta og Kólumbía situr þægilega í þriðja sætinu.
Ísland lægst á listanum fyrir tæpum þremur árum þegar liðið vermdi 131. sæti á styrkleikalistanum. Í dag situr Nýja-Sjáland í því sæti á listanum. Í sætinu fyrir ofan Nýja-Sjáland situr Guinea-Bissau og fyrir neðan liðið er landslið Kasakstan, sem er með Íslandi í riðli.
Ísland er í aðeins betri félagsskap núna en liðið var fyrir tæpum þremur árum. Nú er lið Fílabeinsstrandarinnar í sætinu fyrir ofan og Ekvador í sætinu fyrir neðan. Bæði liðin léku á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Brasilíu í sumar.