Framlag Íslands, Unbroken í flutningi Maríu Ólafsdóttur, komst ekki áfram í úrslit Eurovision söngvakeppninnar sem fram fara á laugardaginn. Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2007 að Ísland kemst ekki í úrslit söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.
Löndin sem komust áfram í kvöld voru Litháen, Pólland, Slóvenía, Svíþjóð, Noregur, Svartfjallaland, Kýpur, Azerbaijan, Lettland og Ísrael.
Áður höfðu tíu þjóðir tryggt sér sæti á úrslitakvöldinu eftir fyrri undanúrslitariðilinn sem fram fór á þriðjudaginn, eða Albanía, Armenía, Rússland, Rúmenía, Ungverjaland, Grikkland, Eistland, Georgía, Serbía og Belgía.
Þjóðverjar, Frakkar, Bretar, Ítalir, Austurríkismenn og Spánverjar slást í hópinn á úrslitakvöldinu, ásamt Áströlum, sem var boðið að taka þátt í keppninni í fyrsta skipti núna í ár í tilefni af 60 ára afmæli Eurovision.
Veðbankar eru ekki alveg á eitt sáttir um hvaða lag muni bera sigur úr býtum í úrslitum Eurovision-keppninnar, en ljóst þykir að baráttan um sigurverðlaunin muni standa á milli Svía, Ítala, Rússa og Ástrala.