Ísland og Bandaríkin undirrituðu í dag samning um regluleg upplýsingaskipti vegna fjármálastofnana í samræmi við hin svokölluðu FATCA-lög, sem voru samþykkt í Bandaríkjunum árið 2010. FATCA er stytting á enska heitinu Foreign Accounts Tax Compliance Act og varðar bandarísk lög um upplýsingaskyldu erlendra fjármálastofnana í eigu bandarískra aðila. Í tilkynningu vegna undirritunarinnar segir að „samkvæmt lögunum ber öllu erlendum fjármálastofnunum að senda árlega upplýsingar um tekjur og eignir bandarískra skattgreiðenda beint til bandarískra skattyfirvalda. Fallist þau ekki á að senda slíkar upplýsingar eiga þau á hættu að lagður verði 30% afdráttsskattur á tilteknar greiðslur til þeirra sem upprunnar eru í Bandaríkjunum“.
Samningurinn sem undirritaður var í dag felur í sér að upplýsingaskiptin fari fram milli skattyfirvalda í Bandaríkjunum og á Íslandi. Bæði ríkin þurfa að senda upplýsingar til hins um skattgreiðendur, bæði einstaklinga og fyrirtæki, samkvæmt honum.
Mikilvægt skref í átakinu gegn skattaskjólum
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, skrifaði undir samninginn fyrir hönd Íslands. Hann segir að það sé ánægjulegt að samningurinn sé í höfn. Tilkoma hans létti byrði af fjármálastofnunum með því að auka samskipti vegna þeirra mála sem samningurinn nær yfir fari fram í gegnum skattyfirvöld. „Það er stefna íslenskra stjórnvalda að auka regluleg upplýsingaskipti í skattamálum á alþjóðavísu og þessi samningur er skref í þá átt“.
Robert C. Barber, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, undirritaði samninginn fyrir hönd landsins. Hann segir undirritunina vera mikilvægt skref fram á við í sameiginlegu átaki í baráttunni gegn skattaskjólum sem gagnist báðu löndunum. FATCA sé eitt dæmi um það „djúpu og traustu bönd sem tengja á jákvæðan hátt hagkerfi Íslands og Bandaríkjanna“.