Íslenska karlalandsliðið í handbolta er úr leik á HM í Katar, eftir fimm marka tap gegn sterku landsliði Dana, 30-25.
Íslenska liðið byrjaði leikinn illa, eins og flesta aðra leiki liðsins á heimsmeistaramótinu til þessa, og Danir komust í 5-0 á upphafsmínútum leiksins. Landslið Íslands skoraði ekki fyrsta markið sitt í leiknum fyrr en eftir rúmar sjö mínútur. Danir náðu mest sjö marka forystu í fyrri hálfleik í stöðunni 14-7, en staðan í hálfleik var 16-10 dönskum í vil.
Markmaður Dana fór á kostum í fyrri hálfleik og varði tíu af tuttugu skotum íslenska liðsins á rammann í hálfleiknum.
Danir héldu frumkvæðinu í fyrri hálfleik, en íslenska liðið náði ekki að skora fyrsta markið sitt í síðari hálfleik fyrr en eftir fimm mínútur.
Leikurinn náði aldrei að verða spennandi, en mest náði danska liðið níu marka forystu. Sóknarleikur Íslands var ráðalaus og varnarleikurinn götóttur á meðan Danir skoruðu nánast að vild, með leikinn kyrfilega í höndum sér.
Danir gáfu eftir er líða fór á leikinn, enda sigurinn fyrir margt löngu kominn í höfn, og Íslendingar gengur á lagið og minnkuðu forskotið. Allt kom þó fyrir ekki, og leiknum lyktaði með fimm marka sigri Dana, 30-25.
Íslenska liðið lék sex leiki á HM í Katar. Liðið sigraði tvo leiki á móti Egyptalandi og Alsír, einum leik lyktaði með jafntefli á móti Evrópu- og Ólympíumeisturum Frakka, og liðið tapaði þrívegis á móti Svíþjóð, Tékklandi og Danmörku.