Íslandsbanki hagnaðist um 22,8 milljarða króna eftir skatta í fyrra, samanborið við 23,1 milljarðs hagnað árið 2013. Í lok árs var eiginfjárhlutfall bankans 29,6 prósent. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íslandsbanka í tilefni uppgjörsins.
Á alþjóðlegan mælikvarða telst 29,6 prósent hátt, en lágmarksviðmið Fjármálaeftirlitsins er sextán prósent.
Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 12,8% á árinu samanborið við 14,7% árið 2013.
Hreinar vaxtatekjur voru 27,1 milljarður , samanborið við 28,4 milljarða árið 2013. Það er lækkun um 4,7 prósent milli ára. Vaxtamunur var þrjú prósent og „hefur nú náð stigi sem búist er við að haldist til lengri tíma“, að því er segir í fréttatilkynningu frá bankanum.
Hreinar þóknanatekjur voru 11,5 milljarðar króna á árinu. Hækkunin er tíu prósent á milli ára og má að mestu leyti rekja til viðskiptabankasviðs og dótturfélaga bankans.
Kostnaðarhlutfall var 57,7 prósent en hlutfallið var 58,5 prósent árið 2013.
Heildareignir bankans voru 911 milljarðar króna í lok árs í fyrra, samanborið við 866 milljarða í lok árs 2013.