Greining Íslandsbanka spáir því að nafnverð íbúðaverðs muni hækka um 23 prósent að nafnvirði á þremur árum, 2015 til 2017. Að teknu tilliti til verðbólgu, sem greiningin spáir að muni aukast nokkuð á næstu misserum, þá verður raunverðshækkunin aðeins önnur. „Við spáum því að nokkuð dragi úr þeim hraða hækkunartakti sem hefur verið í íbúðaverði undanfarið. Reiknum við með 7,0% raunverðshækkun íbúðarhúsnæðis á þessu ári, 3,4% á næsta ári og 1,9% á árinu 2017,“ segir í þjóðhagspá greiningarinnar sem kom út í dag. Þessi stigminnkun milli ára skýrist öðru fremur af aukinni verðbólgu, af því er fram kemur í spánni.
Sé mið tekið af íbúð sem keypt var 1. janúar á þessu ári á 30 milljónir, þá mun sama íbúð kosta 36,9 milljónir í lok árs 2017, sé mið tekið af þessari spá. Aukin verðbólga getur síðan haft áhrif á verðtryggðar húsnæðisskuldir til hækkunar, og einnig vexti verðtryggðra og óverðtryggðra húsnæðislána.
Þá er einnig gert ráð fyrir kaupmáttur launa haldi áfram að aukast, um 4,8 prósent á þessu ári, 4,3 prósent á næsta ári og 2,6 prósent árið 2017.