„Sú hagfellda verðbólguþróun sem hefur hér undanfarið mun taka enda á næstunni og verðbólga mun færast í aukanna. Spáð er að verðbólga verði að jafnaði 1,9 prósent á yfirstandandi ári, 3,6 prósent á árinu 2016 og 3,7 prósent á árinu 2017.“ Þetta kemur fram í þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka, sem kynnt var í Hörpu í morgun.
Þar er spáð hóflegum hagvexti næstu tvö árin. Hann verði 4 prósent á þessu ári, 3,7 prósent 2016 og 2,4 prósent árið 2017. Þá er gert ráð fyrir að hagur heimilanna muni halda áfram að vænkast með auknum kaupmætti, minna atvinnuleysi og hækkun eignaverðs. Því er spáð að einkaneysla muni vaxa um 3,8 prósent að jafnaði næstu þrjú árin og fjárfestingar heimilanna í íbúðarhúsnæði muni vaxa næstu þrjú árin, eða um 18,5 prósent í ár, 16,3 prósent á næsta ári og ellefu prósent árið 2017.
Þjóðhagsspáin gerir ráð fyrir að daga muni úr hækkunum á húsnæðisverði á tímabilinu. Þar er gert ráð fyrir 7,0 prósent raunverðshækkun íbúðarhúsnæðis á þessu ári, 3,4 prósent á næsta ári og 1,9 prósent árið 2017.
Gengisflökt í kjölfar haftaafnámsaðgerða
Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir stöðugu gengi krónunnar á spátímabilinu, en að flökt gengisins muni aukast samhliða þeim skrefum sem hugsanlega verði stigin á tímabilinu varðandi afnám fjármagshanfta. Spáin gerir ráð fyrir að raungengi krónunnar muni hækka á tímabilinu vegna mikillar innlendrar kostnaðarverðhækkunar og aukinnar innlendrar verðbólgu.
„Greining Íslandsbanka spáir því að að peningastefnunefnd Seðlabankans bregðist við versnandi verðbólguhorfum, miklum launahækkunum og aukinni spennu í hagkerfinu með hækkun stýrivaxta bankans um eitt prósentustig fyrir lok þessa árs, um annað prósentustig á næsta ári og um 0,5 prósentur á árinu 2017.“