Greining Íslandsbanka spáir því að hagvöxtur á Íslandi árið 2015 verði 4,3 prósent. Þá gerir spá hennar ráð fyrir því að hagvöxtur verði svipaður á árinu 2016, eða 4,4 prósent, en dragist síðan saman á árinu 2017 og verði þá 2,5 prósent. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka sem birt var í dag.
Þar segir að þáttaskil séu að eiga sér stað í íslensku efnahagslífi. Eftir tímabil talsverðs slaka sé nú farin að sjást merki um spennu á vissum sviðum hagkerfisins. Þenslueinkenna sé farið að gæta á vissum sviðum efnahagslífsins, til dæmis á vinnu- og eignamarkaði. Að mati Greiningar Íslandsbanka eru framundan "talsverð hröð hækkun launa og húsnæðisverðs".
Minna atvinnuleysi og aukin einkaneysla
Í þjóðhagspánni segir að í þeirri uppsveiflu sem hefur átt sér stað hérlendis undanfarin misseri hafi útflutningu leikið veigamesta hlutverkið. Þetta hafi hins vegar breyst í ár og er því spáð að hagvöxtur í ár og á næstu tveimur árum verði byggður að verulegu leyti á aukinni innlendri eftirspurn þrátt fyrir að útflutningur muni einnig aukist umtalsvert á spátímabilinu.
Íslandsbanki spáir því að atvinnuleysi verði komið niður í 3,5 prósent árið 2017 og að vinnuaflsþörf verði á spátímabilinu sem verði mætt með innflutningi á vinnuafli að stórum hluta. "Mun þetta draga úr þenslu á vinnumarkaði og gera það að verkum að launaskrið verður minna en ella".
Spáin gerir ráð fyrir því að hagur heimila haldi áfram að vænkast með hækkun á eignaverði, sérstaklega íbúðaverði, og lækkandi skuldum. Það muni birtast í aukinni neyslu og fjárfestingum. Því gerir spáin ráð fyrir að einkaneysla muni vaxa um 4,8 prósent í ár, 5,2 prósent á næsta ári og 2,8 prósent 2017.
Verðbólga fer vaxandi og hætta er á ofþenslu
Greiningin gerir ráð fyrir því að verðbólga muni haldast nálægt verðbólgumarkmiði næstu misserin en aukst þegar líða tekur á spátímabilið og fara nokkuð yfir markmiðið, sem er 2,5 prósent.
Þá segir að yfirstandandi ferli við losun fjármagnshafta skapi óvissu um þróun efnahagsmála á næstunni. "Um er að ræða afar stóra framkvæmd þar sem áhrif á peningastærðir og raunhagkerfið eru alls ekki með öllu fyrirséð. Óvíst er þannig með hvaða hætti þær aðgerðir munu hafa áhrif á stöðugleika hagkerfisins til skemmri tíma litið þó að losun fjármagnshafta sé afar jákvætt skref fyrir íslenskt efnahagslíf og stór hluti af þeim þáttaskilum sem eru að eiga sér stað í hagkerfinu um þessar mundir".
Að lokum segir að hætta sé á því að ofþensla myndist í hagkerfinu á spátímabilinu þar sem ójafnvægi skapast með of miklum vexti innlendrar eftirspurnar og launahækkunum umfram það sem innistæða sé fyrir. "Slík þróun mun á endanum leiða til samdráttar hagkerfisins og leiðréttingar í formi lækkunar gengis krónunnar, verðbólguskots, aukins atvinnuleysis og rýrnunar kaupmáttar svo eitthvað sé talið af neikvæðum fylgifiskum slíkrar þróunar, sem vel er þekkt hér á landi frá fyrri hagsveiflum."