Niðurstöður rannsóknar á viðhorfi Íslendinga til ætlaðs samþykkis við líffæragjafir, sýna að þeir eru afar jákvæðir í garð löggjafar þar sem gert er ráð fyrir ætluðu samþykki við líffærgjafir. Stuðningur við slíka löggjöf er tvöfalt meiri hérlendis en mælst hefur í öðrum löndum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein um rannsóknir á þessum viðhorfum í nýjustu útgáfu Læknablaðsins.
Karen Rúnarsdóttir meistaranemi, Kjartan Ólafsson lektor og Ársæll Arnarsson lífeðlisfræðingur unnu að rannsókninni.
Líffæraígræðsla er oft eina úrræðið fyrir sjúklinga með líffærabilun á lokastigi en framfarir á þessum sviði hafa verið gríðarlega miklar frá því að fyrsta velheppnaða aðgerðin var gerð í Boston árið 1954, að því er segir í greininni í Læknablaðinu. „Helsta vandamálið við þessar lækningar hefur hins vegar verið viðvarandi skortur á líffærum til ígræðslu - eftirspurn eftir þeim hefur aukist hratt án þess að framboðið hafi aukist til samræmis,“ segir í greininni.
Ekki síst af þessum ástæðum hefur umræða um viðhorf almennings til löggjafar sem snýr að líffæragjöf farið vaxandi, og mikilvægi þeirrar umræðu sífellt að aukast sömuleiðis.
Lesa má greinina í Læknablaðinu hér.