Alfreð Örn Clausen, rúmlega fertugur Íslendingur, er eftirlýstur af lögreglu í Bandaríkjunum vegna gruns um að hann hafi tekið þátt í því að svíkja út 44 milljónir Bandaríkjadala í tengslum við lánastarfsemi þar í landi. Hann hefur verið ákærður fyrir svikin.
WANTED #AlfredClausen for Grand Theft in $44 million scheme. Clausen is known to go back and forth to #Iceland pic.twitter.com/JqvQwqEiJd
— SB District Attorney (@sbcountyda) March 17, 2015
RÚV greindi frá málinu og náði tali af Alfreð í kvöld. Hann er staddur á Íslandi. Hann sagðist í samtali við RÚV ekki vera eftirsóttur á Íslandi og að hann sé ekki sekur. „Þetta er mjög flókið og skrýtið mál, en við gerðum ekkert rangt.“ Hann veit ekki hvort hann mun gefa sig fram við yfirvöld í Bandaríkjunum.
Viðskiptafélagar Alfreðs eru í haldi lögreglu í San Bernardino og verða ekki látnir lausir nema gegn 17 milljóna dala tryggingu. Þeir heita Stephen Lyster Siringoringo og Joshua Michael Cobb. Mennirnir þrír eru grunaðir um að hafa svikið féð af fólki í gegnum svikamyllu sem gekk út á endurfjármögnun lána. Fórnarlömbum svikanna var lofað að breytingar yrðu gerðar á lánum þeirra og að lögfræðingar myndu sjá um mál þeirra. Samkvæmt því sem fram kemur í bandarískum fjölmiðlum var reikningum fólks breytt og peningar og gjöld tekin mánaðarlega af fólkinu.
Samkvæmt fréttum eru mennirnir þrír ákærðir fyrir 23 stórþjófnaði og peningaþvætti. Ef þeir verða dæmdir eiga þeir fyrir höfði sér allt að 30 ára fangelsi.