Ný íslensk heimildarmynd, Íslenska krónan, verður tekin til sýninga í Bíó Paradís frá og með næsta sunnudegi. Myndin fjallar um krónuna, sögu hennar, stöðu og framtíð. Leikstjóri myndarinnar er Garðar Stefánsson og framleiðandi hennar Atli Bollason. Þeir skrifuðu handrit myndarinnar saman.
Myndin hefur verið í vinnslu undanfarin sjö ár, og hefur því verið gerð á miklum umbrotatímum í íslenskri hagsögu, eins og höfundarnir orða það. Vinnslan hófst vorið 2008, og átti þá að fjalla um kosti og galla þess að taka upp evru á Íslandi. Þegar aðstæður á Íslandi breyttust svo um munar breyttist umfjöllunarefnið. Þeir Garðar og Atli endurskrifuðu myndina með það fyrir augum að fræða almenning um peningamál og hugtök sem þá voru komin í hámæli - eins og verðbólgu, verðtryggingu, gjaldeyri og vexti.
Lögð var áhersla á að myndin væri auðskilin og fræðandi án þess að fórna fjölbreytni í skoðunum eða gagnrýnni hugsun. Fjölmargir viðmælendur eru í myndinni, til dæmis Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Heiðar Már Guðjónsson fjárfestir, Vigdís Hauksdóttir þingkona, Eyja Margrét Brynjarsdóttir heimspekingur og Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur.
Tvær stiklur hafa verið birtar úr myndinni og þær má sjá hér að neðan.