Sigurður Hannesson og Benedikt Gíslason, helstu ráðgjafar ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, birtust í áhugaverðu viðtali í Viðskiptablaðinu fyrir helgi. Benedikt er verkfræðingur og kom meðal annars að vinnu við losun fjármagnshafta, og Sigurður er stærðfræðingur og formaður sérfræðingahópsins sem vann að skuldaniðurfellingaaðgerð ríkisstjórnarinnar, eða Leiðréttinguna svokölluðu.
Það er í sjálfu sér ekki efni í pælingu að tvímenningarnir hafi birst í blaðaviðtali, enda báðir afburða færir á sínum sviðum, heldur vöktu ákveðin ummæli í viðtalinu athygli. Eða ekki.
Þar kemur fram að tvímenningarnir eru sammála um að eiginleikar krónunnar hafi verið kostur í þeim aðstæðum sem Íslendingar stóðu frammi fyrir vegna fjármagnshaftanna. Og þá er haft eftir Bendikti að þó krónan hafi verið vandamál, þá hafi hún líka verið lausn. Nánar tiltekið hefur blaðið eftir honum: „Ég held að hún hafi verið mjög mikill kostur í stöðunni. Þó að hún hafi verið rót vandans, þá er hún líka stór hluti af lausninni.“
Það kemur svo sem ekki á óvart að ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum tali með slíkum hætti. Hins vegar er áhugavert hvernig haldið er á lofti að þó vissulega krónan hafi skapað vanda, enda flestum til óþurftar, hafi hún líka reynst einn okkar helsti bjargvættur. Hún skóp sem sagt vandann og leysti hann líka sjálf. Það er ansi magnað. En kannski hefði krónan bara alls ekki þurft að bjarga landinu út úr ógöngunum ef hún hefði ekki átt stóran þátt í að leiða það í þær. Ef þú leikur þér ekki að eldi, þá eru nefnilega mun minni líkur á að þú brennir þig á honum. Pæling.