Íslenska ríkið var í dag sýknað í héraðsdómi Reykjavíkur af kröfum Þórðar Más Jóhannessonar, fyrrum forstjóra Straums hf. Þórður Már krafðist þess fyrir dómi að tekjuskatts- og útsvarsstofn hans vegna skattársins 2007 yrði lækkaður um tæpar 600 milljónir króna. Málið snérist um hvort skattleggja ætti hagnað af hlutabréfaviðskiptum Þórðar Más sem fjármagnstekjur eða hlunnindi starfsmanns.
Upphaf málsins má rekja til þess að á árunum 2004 og 2005 gerði Þórður Már tvo samninga við Straum í nafni fjárfestingafélagsins Brekku ehf. um starfstengd kaup á hlutabréfum í Straumi. Með fyrri samningnum keypti Þórður Már hlutabréf fyrir 327 milljónir króna og með seinni samningnum kepti hann hlutabréf í Straumi fyrir 1.350 milljónir króna. Samhliða var gerður samningur um skilyrtan kauprétt Straums auk þess sem Íslandsbanki fjármagnaði að öllu leyti kaupin. Brekka, félag Þórðar Más, var með samningum við Straum tryggt fyrir lækkun á markaðsverði bréfanna en Straumi var skylt að kaupa bréfin til baka á að minnsta kosti upphaflegi söluverði.
Yfirskattanefnd úrskurðaði árið 2013 á að með samningum hafi Straumur veitt Þórði Má starfstengd hlunnindi. Hagnað Brekku af viðskiptunum ætti því að skattleggja sem launatengd hlunnindi starfsmanns en ekki sem fjármagnstekjur. Þessu mótmæli forstjórinn fyrrverandi fyrir héraðsdómi, en honum var sagt upp störfum árið 2006. Þá seldi hann hlutabréfin á markaði og innleysti 810 milljóna króna söluhagnað.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að úrskurður yfirskattanefndar, um að tekjur Brekku hafi átt að skilgreina sem skattskyld hlunnindi starfsmann. Íslenska ríkið var því sýknað af kröfum Þórðar Más um að lækka ætti tekjuskatts- og útsvarsstofn hans vegna gjaldársins 2007 um nærri 600 milljónir króna. Málið dæmdu Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari og meðdómendurnir Ásmundur G. Vilhjálmsson aðjúnkt og Hersir Sigurgeirsson dósent.