Danski fréttamiðillinn Berlingske Tidende (BT) fjallar um viðureign íslenska karlalandsliðsins í fótbolta við það tékkneska sem fram fór á Laugardalsvellinum í gærkvöldi. Eins og allir vita lyktaði leiknum með 2-1 sigri Íslands, en með sigrinum smellti karlalandsliðið sér á topp A-riðils þegar fjórir leikir eru eftir í riðlinum.
Landsliðið er hársbreidd frá sögulegum áfanga; að tryggja sér sæti á lokamóti í fótbolta, en margir vilja meina að Íslendingar séu komnir með aðra löppina til Frakklands, þar sem Evrópumeistaramótið fer fram næsta sumar.
Blaðamaður BT skrifar um hvernig íslenska liðið náði að snúa leiknum sér í vil eftir að hafa lent marki undir í síðari hálfleik. Af skrifum hans má dæma að hann hafi hrifist af baráttugleði íslensku strákanna og hvernig þeir unnu sig aftur inn í leikinn.
„Það er kannski skrítið að venjast tilhugsuninni, eftir að hafa verið lið sem vart var tekið alvarlega á meðal Norðurlandanna í hundrað ár, en nú er Ísland með besta norræna landsliðið og það stöðugasta,“ skrifar blaðamaður BT.
„Leikur íslenska liðsins, sem á árum áður einkenndist einna helst af baráttugleði, hefur tekið stakkaskiptum og nýtur nú góðs af því að leikmenn liðsins spila sem atvinnumenn á meginlandinu,“ heldur blaðamaður BT áfram. „Danska úrvalsdeildin kom meira að segja við sögu í þessari viðureign í alþjóðlegum fótbolta þegar Ari Freyr Skúlason, leikmaður OB, sendi fallega sendingu á kollinn á Aroni Einari Gunnarssyni sem stýrði boltanum fram hjá Petr Cech.
Holland mætir íslenska undrinu á heimavelli þann 6. september næstkomandi.“