Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Modio, sem var stofnað fyrir tæpum tveimur árum síðan, hefur verið selt til alþjóðlega hugbúnaðarfyrirtækisins Autodesk. Kaupin voru kynnt í dag en þau gengiu í raun í gegn í október síðastliðnum. Að sögn Hilmars Gunnarssonar, stofnanda og forstjóra Modio, verður kaupverðið ekki gefið upp. „Kaupverðið er trúnaðarmál. En við vorum mjög sáttir.“
Hilmar stofnaði Modio, sem þróar app fyrir snjallsíma og spjaldtölvur sem gerir hverjum sem er kleift að hanna skemmtileg módel úr margskonar einingum og þrívíddarprenta þau með lítilli fyrirhöfn vorið 2013. Hann fjármagnaði félagið að öllu leyti sjálfur utan þess að tveir félagar hans gerðust litlir hluthafar.
Hann er því að vonum glaður með niðurstöðuna. „Það er gaman að þetta skyldi ganga svona hratt í gegn. Félagið er búið að vera í gangi í rúmt eitt og hálft ár og þetta er ótrúlegur árangur á svona skömmum tíma.“
Von á fjölgun á Íslandi
Modio kom fyrst á markað í maí 2014 og náði miklum vinsældum meðal áhugamanna um þrívíddarprentun. Síðan að kaup Autodesk gengu í gegn í október hefur verið unnið að nýrri útgáfu af appinu sem nefnist nú Tinkerplay. Nýja útgáfan af appinu var kynnt í dag samhliða kaupunum á Modio.
Í fréttatilkynningu kemur fram að Autodesk hyggist áfram rekstri þróunarskrifstofu á Íslandi undir merkjum Autodesk með áherslu á þróun á Tinkerplay og samþættingu appsins við aðrar vörur Autodesk. Hilmar segir líkur á að þróunarskrifstofan hérlendis muni vaxa. „Við vorum fjórir þegar við gengum frá sölunni í október og það eru þegar búnir að bætast tveir við á síðustu vikum. Það má því búast við því að þeim fjölgi eitthvað í viðbót.“
Hilmar starfaði á árum áður um árabil hjá OZ á Íslandi og í Kanada og stýrði meðal annars söluferlinu þegar OZ var selt til Nokia árið 2008. Hilmar hefur auk þess fjárfest með góðum árangri í ýmsum íslenskum sprotafyrirtækjum á borð við DataMarket og Caoz á undanförnum árum.