Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Digon Games stefnir að útgáfu nýs fótboltaleiks, Kickoff CM að nafni, í ágúst næstkomandi. Í leiknum stýra spilarar eigin félagi og etja kappi í rauntíma við vini, kunningja og aðra notendur leiksins, að því er segir í fréttatilkynningu frá Digon Games. Leikurinn kemur fyrst út fyrir vafra en stefnt er að útgáfu fyrir spjaldtölvur og snjallsíma fljótlega í kjölfarið.
Haft er eftir Guðna Rúnari Gíslasyni, leikahjönnuði hjá Digon Games, að ýmsar nýjungar verði í boði í leiknum. „Þarna erum við að skapa einn heim þar sem þú etur kappi við vini og kunningja. Þú eignast knattspyrnufélag sem þú munt stjórna og taka þátt í að byggja upp og nota til að keppa gegn vinum og öðrum andstæðingum í leiknum.“ Hann segir ennfremur að Kickoff verði aðgengilegur og þannig frábrugðinn öðrum fótboltaleikjum. „Öll hönnun og viðmót hafa verið útfærð með það að markmiði að allir geti skilið það sem fyrir augu ber. Við höfum sett mikla vinnu í að leikurinn sé aðgengilegur fyrir notendur.“
Útgáfa Kickoff í ágúst næstkomandi verður fyrir íslenska notendur. Í kjölfarið er stefnt að markaðssetningu leiksins erlendis.