Ísraelski samheitalyfjarisinn Teva Pharmaceutical Industries gæti eignast samheitalyfjaarm Allergan og þar með Actavis á Íslandi. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, en Teva og Allergan eru sögð í viðræðum um kaupin, sem verði formlega kynnt í dag. Sagt er að Teva muni greiða 45 milljarða dala fyrir starfsemina.
Kaupin eru þau síðustu í röð margra stórra samruna í heilbrigðisgeiranum, en mikil samþjöppun hefur orðið í greininni, einkum vegna breyttrar heilbrigðislöggjafar í Bandaríkjunum.
Greint var frá því í lok júní að lyfjaverksmiðja Actavis á Íslandi myndi flytjast frá Íslandi í hagræðingarskyni. 300 manns vinna nú við lyfjaframleiðslu hér á landi en framleiðslan verður flutt í skrefum fram til ársins 2017. Þá var því heitið að önnur starfsemi á Íslandi yrði óbreytt, en 400 til viðbótar við þessi 300 starfa hjá fyrirtækinu hér á landi.
Sigurður Óli Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Actavis á Íslandi, er nú forstjóri samheitalyfjasviðs Teva. Teva er stærsti framleiðandi samheitalyfja í heiminum og er metið á um sextíu milljarða dala.